miðvikudagur 3. maí 2017

Ráðstefnuglærur aðgengilegar á vef

Nú hafa allar glærur sem kynntar voru á ráðstefnunni "Skemmtiferðaskip á réttri leið?" verið gerðar aðgengilegar á vef Háskólaseturs Vestfjarða. Ráðstefnan fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í byrjun apríl og fluttu 18 framsögumenn fjölbreytt og fróðleg erindi þar sem tekið var á ýmsu málefnum sem tengjast hinni ört vaxandi atvinnugrein sem móttaka skemmtiferðaskipa á Íslandi er.

Aðsókn að ráðstefnunni fór fram úr björtustu vonum skipuleggjenda og má ljóst vera að eftirspurn er eftir samráðsvettvangi í þessari grein ferðaþjónustunnar. Það voru Háskólasetur Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, Ferðamálasamstök Vestfjarða, Markaðsstofa Vestfjarða og Vesturferðir sem stóðu að ráðstefnunni og hlutu til þess styrk frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

 


Ljósmynd: Ágúst G. Atlason
Ljósmynd: Ágúst G. Atlason