föstudagur 31. mars 2017

Ráðstefna um skemmtiferðaskip hefst á mánudag

Ráðstefnan „Skemmtiferðaskip - á réttri leið?“ hefst í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á mánudagsmorgun, 3. apríl, og stendur til eftirmiðdags á þriðjudag. Það er Háskólasetur Vestfjarða sem hefur veg og vanda að skipulagningu ráðstefnunnar í góðu samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbæ, Markaðsstofu Vestfjarða, Ferðamálasamtök Vestfjarða, Vesturferðir og fleiri aðila.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, mun setja ráðstefnuna á mánudagsmorgun en fyrirlesarar koma víðsvegar að af landinu, jafnt úr röðum fræðimannasamfélagsins sem hagsmunaaðila. Heimamenn verða í sviðsljósinu eftir hádegi á þriðjudag og þar mun kenna ýmissa grasa. Lykilræðumaður ráðstefnunnar er Norðmaðurinn Frigg Jörgensen, framkvæmdastjóri AECO sem eru hagsmunasamtök útgerða könnunar- og skemmtiferðaskipa á Norðurslóðum. Frigg hefur einnig langa reynslu af uppbyggingu ferðaþjónustu á Svalbarða en þangað hafa skemmtiferðaskip sótt um langt árabil.

Markmið ráðstefnunnar er að leiða saman ólík sjónarmið um þessa ört vaxandi grein ferðaþjónustunnar á Íslandi með það fyrir augum að skapa framtíðarsýn fyrir málaflokkinn með sjálfbærni að leiðarljósi.

Ráðstefnan fer að mestu fram á íslensku, hún er opin öllum áhugasömum og er ráðstefnugjaldi still í hóf til að gefa sem flestum kost á að sækja hana. Einungis 5.000 krónur kostar að sækja báða ráðstefnudagana. Skráning fer fram á vefsíðu ráðstefnunnar þar sem einnig má nálgast dagskrá hennar.


Ráðstefna um skemmtiferðaskip verður haldin í Edinborg á Ísafirði 3.-4. apríl 2017.
Ráðstefna um skemmtiferðaskip verður haldin í Edinborg á Ísafirði 3.-4. apríl 2017.