fimmtudagur 5. febrúar 2009

Ráðningar í íslenskum fyrirtækjum

Gestur Vísindaports Háskólaseturs Vestfjarða, föstudaginn 6. febrúar, er Díana Jóhannsdóttir, MSc í mannauðsstjórnun. Í erindi sínu mun Díana kynna lokaverkefni sitt til MSc prófs í alþjóðlegri mannauðsstjórnun. Líkt og fyrr fer Vísindaportið fram í kaffisal Háskólasetursins og hefst klukkan 12.10.

 

Lokaverkefni Díönu fjallar um ráðningarferli íslenskra fyrirtækja, allt frá því að ákvörðun hefur verið tekin um að ráða þurfi starfsmann til sjálfs starfsmannavalsins. Rannsóknin var framkvæmd með því að taka viðtal við mannauðsstjóra í fimm íslenskum fyrirtækjum. Ráðningarferli þessara fyrirtækja voru svo borin saman, bæði hvort við annað og einnig við ferli áþekkra fyrirtækja í öðrum löndum. Megin áherslur verkefnisins voru að greina ráðningarferli fyrirtækjanna, rannsaka hvaða þættir hafa mest áhrif á val ráðningarleiða og hversu mikið ferlið hefur breyst undanfarin fimm ár.

 

Díana Jóhannsdóttir lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut við Menntaskólann á Akureyri árið 2002, að því loknu stundaði hún nám í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun við Háskólann á Akureyrir og lauk BS prófi árið 2006. Þaðan lá leiðin til Englands þar sem hún stundaði nám í alþjóðlegri mannauðsstjórnun við University of Portsmouth og útskrifaðist með MSc prófi árið 2008.