mánudagur 24. júní 2019

Plastrannsókn Háskólaseturs hlýtur styrk frá Norrænu ráðherranefndinni

Rannsóknarverkefni Háskólaseturs Vestfjarða „Plast í nytjafiskistofnum Noregs, Íslands og Færeyja“ hlaut nýverið styrk frá vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um hafið og strandsvæði (NHK). Verkefnið er leitt af dr. Catherine Chambers, fagstjóri við Háskólasetur Vestfjarða en samstarfsaðilar eru dr. Pernilla Carlsson frá NIVA, norsku vatnarannsóknarstofnuninni, sem jafnframt kennir við Háskólasetrið, dr. Maria Dam frá Umhverfisstofnun Færeyja, Dr. Rachel Hurley frá NIVA og dr. Inger Lise Nerland Bråte frá NIVA.

Rannsóknir á plasti í hafinu hafa flestar einskorðast við sjávarspendýr og fugla. Því er tilfinnanlegur skortur á stöðluðum upplýsingum um plast í magainnihaldi nytjafiska sem eru mikilvægir á norrænum slóðum. Í þeim tilfellum sem slíkar rannsóknir finnast er erfitt að staðla niðurstöðurnar vegan ólíkra aðferða við rannsóknarstofuvinnu og vettvangsrannsóknir. Verkefnið er til eins árs og hlaut það 325.000 danskar krónur. Þessir fjármunir munu nýtast til að vinna að efnagreiningum sýna úr magainnihaldi þorsks frá Íslandi, Noregi og Færeyjum en einnig mun ein meistaraprófsritgerð verða hluti af rannsókninni.

Plast í hafinu er viðfangsefni sem hefur verið í brennidepli undanfarið. Þrátt fyrir það hefur skort nokkuð á samhæfingu á milli rannsakenda sem og á milli rannsakenda og stefnumótandi aðila. Rannsóknarteymi verkefnisins mun því vinna að því að vísindaniðurstöður nýtist í stefnumótun með því að gefa út lista yfir bestu starfsvenjur (e. best practices) og aðferðarlýsingar til að staðla greiningu á plasti í magainnihaldi fiska. Sérstaklega verður horft til þess hvernig hægt er að aðlaga þessa staðla að rannsóknarstöðvum í dreifbýli sem hafa takmörkuð aðföng og bolmagn þegar kemur að rannsóknum.

Niðurstöður verkefnisins munu bæta við mikilvægum upplýsingum sem gagnast sjávarútvegi og annarri haftengdri starfsemi í þessum þremur löndum sem öll reiða sig á ímynd óspilltra og hreinna hafsvæða Norður-Atlantshafsins. Auk þess eru heilbrigð hafsvæði afar mikilvæg fyrir fæðuöryggi og staðbundna menningu í löndunum sem byggir á sjósókn og hefðum sem tengjast hafinu. Verkefnið er beint framlag til kafla 3.4 í Norrænni aðgerðaráætlun í umhverfismálum hvað viðvíkur umhverfi sjávar. Áhrif mengunar hafsins felur í sér marga óvissuþætti en í Norrænu aðgerðaráætluninni er kallað eftir frekari rannsóknum á uppruna og áhrifum mengunar í hafinu. Verkefnið mun einnig virkja almenning og hagsmunaaðila, enda verður þekkingin sem af því skapast aðgengileg og miðlað til viðkomandi hagsmunaaðila.


Dr. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun (t.h.) ásamt Pernillu Carlsson (t.v.), kennara við námsleiðina sem jafnframt er einn af samstarfsaðilum verkefnisins.
Dr. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun (t.h.) ásamt Pernillu Carlsson (t.v.), kennara við námsleiðina sem jafnframt er einn af samstarfsaðilum verkefnisins.