þriðjudagur 26. mars 2013

Páskafrí og drög að lokaverkefnum

Síðastliðinn föstudag lauk kennslu í tveimur valnámskeiðum, Fishing Technology og Maritime Transport, í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Nemendur slá þó ekki slöku við í Dymbilvikunni því nú stendur yfir einstaklingsmiðuð kennsla í vinnustofuformi þar sem nemendur vinna að uppsetningu lokaverkefna sinna. Nemendur eru mislangt á veg komnir í því ferli, sumir jafnvel búnir að leggja fram tillögu að verkefnum á meðan aðrir eru rétt komnir með grófa hugmynd. Í vikunni eftir páska heldur þetta vinnustofuferli áfram en þá munu nemendur kynna rannsóknarhugmyndir sínar og fá viðbrögð við hugmyndunum og aðferðarfræðinni sem lagt er upp með. Á þessu stigi málsins verður þeim leiðbeint með beturumbætur á rannsóknarhugmyndinni og heimildarvinnu sem snýr að henni. Dangý Arnarsdóttir, fagstjóri námsins og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, verkefnastjóri, halda utan um vinnustofuna.

Þessu næst tekur stærsta námskeið meistaranámsins við, sem telur 8 einingar, en það snýst um hagfræði og stefnumótun (Economics and Policy). Kennari námskeiðsins er dr. Gabriela Sabau sem hefur kennt þetta námskeið frá upphafi námsins. Dr. Sabau kennir við Memorial University í Nýfundnalandi í Kanada en auk hennar mun Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði við Hagfræðideild HÍ, kenna hluta námskeiðsins.