Öryggi í stað stærðar
Gestur í Vísindaporti vikunnar er Sigurður Arnfjörð Helgason, starfsmaður Háskólaseturs Vestfjarða. Sigurður mun byggja fyrirlestur sinn á lokaverkefni sínu í MBA námi sem hann lauk fyrr á þessu ári. Í ritgerðinni fjallaði Sigurður um þann galla sem hann telur vera á hlutabréfamarkaði þar sem aðallega 3 mánaða uppgjör og skammtímasjónarmið ráða ríkjum. Í ritgerðinni lagði hann til að Save 500 sjóður (500 best reknu fyrirtækin) yrði stofnaður á svipaðan hátt og Fortune 500 (500 stærstu fyrirtækin) var á sínum tíma. Þar yrðu áherslurnar á árangur fyrirtækja til lengri tíma og rekstur fyrirtækja á hlutabréfamarkaði yrði þá í meira jafnvægi að mati Sigurðar. Ritgerð Sigurðar nefnist: Save 500 Versus Fortune 500. Sigurður mun í stuttu máli fjalla um þetta efni í Vísindaportinu á föstudaginn 23. nóvember n.k.
Sigurður Arnfjörð Helgason er með BS gráðu í stjórnun frá Coastal Carolina University og MBA gráðu frá Webster University í St. Louis í Bandaríkjunum. Hann hóf störf við Háskólasetur Vestfjarða í september s.l. og starfar sem sérfræðingur á alþjóðasviði.
Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.