fimmtudagur 19. júlí 2007

Opinn dagur í Vatnsfirði við Djúp

Uppgröftur er hafinn í Vatnsfirði við Djúp og Fornleifaskólinn tekinn til starfa. Rannsóknir verða á svæðinu frá 2.-27. júlí í sumar. Uppgröftur í Vatnsfirði hófst sumarið 2003, þá voru teknir nokkrir könnunarskurðir á svæðinu og í ljós kom langeldur frá landnámstímanum. Sumarið 2004 hófst eiginlegur uppgröftur og grafinn upp skáli frá landnámsöld.

Uppgraftarsvæðið var stækkað sumarið 2005. Fundust þá m.a. leifar af smiðju, auk þess brot út gullnælu frá víkingatímanum. Sama sumar hóf Fornleifaskólinn starfsemi sína í Vatnsfirði, alþjóðlegur skóli sem starfar meðan á uppgreftri stendur. Sækja hann nemendur víða að úr heiminum. Jafnframt starfsemi hans hófust rannsóknir á menningarlandslagi í kringum Vatnsfjörð.

Síðastliðið sumar var uppgraftarsvæðið stækkað enn frekar og komu þá í ljós þrjár byggingar við landnámsskálann. Einnig var hafist handa við bæjarhólinn, en þar undir leynast mörg lög minja, m.a. frá lokum miðalda sem að öllum líkindum vitna um höfðingjasetrið Vatnsfjörð. Fornleifaskólinn hóf sitt annað starfsár og rannsóknir á umhverfi Vatnsfjarðar héldu áfram.

Þeir sem leið eiga um Vatnsfjörð í sumar er hvattir til að staldra við og kynna sér uppgröftinn. Upplýsingaskilti eru á svæðinu, auk þess sem fornleifafræðingarnir eru tilbúnir til að svara spurningum.

Miðvikudaginn 25. júlí verður opinn dagur á uppgraftarsvæðinu. Boðið verður upp á skoðunarferðir um svæðið með leiðsögn, kl. 14 og 16. Um kvöldið, kl. 18, verður fyrirlestur í Reykjanesi, þar sem sagt verður þróun rannsóknanna og hvað athuganir sumarsins hafa leitt í ljós. Jafnframt því verður greint frá starfi Fornleifaskólans. Aðgangur er ókeypis. Er þetta kjörið tækifæri fyrir þá sem vilja fræðast um fornleifauppgröftinn í Vatnsfirði og eiga gott kvöld hjá Ferðaþjónustunni í Reykjanesi.