miðvikudagur 8. júlí 2009

Opin kynning á verkefnum SIT nema í háskólasetri 10. júlí

Hópur nema frá School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum hefur undanfarna daga dvalið hjá Háskólasetri Vestfjarða og er dvöl hópsins á Vestfjörðum hluti af námsáfanga Renewable Energy, Technology, and Resource Economics in Iceland, sem fer allur fram á Íslandi, hjá RES Orkuskóla á Akureyri, í Reykjavík og hér á Ísafirði.

 

Nemar þessir leggja stund á nám um endurnýjanlega orku og hafa þeir kynnt sér starfsemi Orkubús Vestfjarða, farið í vettvangsferðir um svæðið auk þess að hafa fengið kynningu á menningu og sögu svæðisins, meðal annars með því að sækja hátíðina Dýrafjarðardagar heim.

 

Hver nemi hefur hér unnið sjálfstætt rannsóknarverkefni , en verkefnin snúast t.a.m. um vatnsorku, vindorku og orkusparnað, og hafa þeir fengið aðstoð frá stofnunum eins og t.d. Snjóflóðasetrinu jafnt og einkaaðilum hér á svæðinu. Föstudaginn 10. júlí nk. verður haldin opin kynning í Háskólasetri Vestfjarða þar sem hver nemi mun fjalla stuttlega um sitt verkefni. Kynningin hefst kl 13 og eru allir sem áhuga hafa hvattir til að mæta. Viljum einnig nota tækifærið og færa öllum sem aðstoðað hafa bestu þakkir.


SIT hópurinn á leið á Kaldbak í Önundarfirði, sunnudaginn 5. júlí, undir leiðsögn Helgu Dóru Kristjánsdóttur, húsfreyju í Tröð og sonar hennar Eyvindar.
SIT hópurinn á leið á Kaldbak í Önundarfirði, sunnudaginn 5. júlí, undir leiðsögn Helgu Dóru Kristjánsdóttur, húsfreyju í Tröð og sonar hennar Eyvindar.