föstudagur 14. nóvember 2008

Opið hús í Vestrahúsinu

Þessa dagana er framkvæmdum við stækkun skrifstofu- og kennslurýmis í Vestra-húsinu að ljúka. Snjóflóðasetur, Nýsköpunarmiðstöð, Fjölmenningarsetur, Vinnueftirlit og Fræðslumiðstöð hafa undirgengist mestar breytingar, ásamt Háskólasetri. Aðdragandi framkvæmdanna var nokkuð langur, þótt framkvæmdatíminn sjálfur hafi verið furðu skammur miðað við umfang, þökk sé snörum handtökum verktaka. Það er því fullt tilefni til að fagna áfanganum og jafnframt þakka námsmönnum, gestum og starfsmönnum hússins fyrir þolinmæðina á meðan á framkvæmdum hefur staðið.

 

Þriðjudaginn, 18.11.08, kl. 12:00 verður því opið hús í Vestra og vonum við að sem flestir, námsmenn, starfsmenn hússins og aðrir Vestfirðingar sjái sér fært að fagna með stofnunum Vestra-hússins að þessum áfanga sé náð. Um leið gefst gott tækifæri til að kynnast starfsemi stofnananna og skoða hinar glæsilegu breytingar. Léttar veitingar verða í boði og eru allir hjartanlega velkomnir.


Vestrahúsið. Ljósmynd: Ágúst Atlason
Vestrahúsið. Ljósmynd: Ágúst Atlason