mánudagur 7. janúar 2013

Opið fyrir umsóknir í meistaranám

Nú er opið fyrir umsóknir í meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun fyrir skólaárið 2013-2014. Líkt og fyrr eru tveir umsóknarfrestir í námið. Umsækjendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, þ.m.t. Íslands, senda inn umsókn fyrir 15. apríl en umsækjendur utan þess þurfa að sækja um fyrir 15. febrúar næstkomandi. Allar nánari upplýsingar um meistaranámið má nálgast á vefsíðu þess.

Námið hóf göngu sína í september árið 2008 og því verður hópurinn sem hefur nám næsta haust sá sjötti í röðinni. Á þeim fimm árum sem meistaranámið hefur verið starfrækt hefur nemendahópurinn ávallt verið fjölbreyttur og námsmenn komið víðsvegar að úr heiminum, frá löndum eins og Spáni, Bandaríkjunum, Kanda, Hollandi, Bretlandi, Kína, Þýskalandi og Frakklandi svo fáein lönd séu nenfd. Kennarahópurinn er einnig fjölbreyttur, þótt flestir kennaranna komi frá Íslandi, Norður Ameríku og Evrópu.

Einnig er vert að benda á að auk meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun býður Háskólasetrið upp á nýja námsleið á meistarastigi undir heitinu Sjávartengd nýsköpun. Áhugasamir umsækjendur í Sjávartengda nýsköpun eru hvattir til að kynna sér þann möguleika á vefsíðu námsins.

Hópmynd af nemendum sem hófu nám í haf- og strandsvæðastjórnun haustið 2012.
Hópmynd af nemendum sem hófu nám í haf- og strandsvæðastjórnun haustið 2012.