miðvikudagur 1. júlí 2009

Olíu- og gasauðlindir á hafsbotni - opinn fyrirlestur

Á föstudaginn kemur, 3. júlí, munu þeir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og Þórarinn Sveinn Arnarsson sérfræðingur kynna starfsemi Orkustofnunar og fjalla sérstaklega um olíu- og gasauðlindir á hafsbotni. Í fyrirlestri sínum mun Guðni rekja helstu þætti í starfi Orkustofnunar og stjórnsýsluverkefni sem þeim tengjast og gefa yfirlit yfir hugsanlega orkugjafa. Þórarinn mun í sínum hluta fjalla um forsendur og undirbúning olíuleitar á Drekasvæðinu, jarðfræði og gögnum sem styðja hugmyndir um að vinnanleg kolvetni séu á svæðinu, útboðsferlið, stjórnsýslu, umhverfismál og hvernig framtíðin getur litið út ef farið verður í boranir og vinnslu á svæðinu. Að lokum verða umræður um hugsanleg orkukerfi fyrir sjávarþorp.

 

Guðni Jóhannesson er eðlisverkfræðingur og lauk doktorsprófi í byggingareðlisfræði frá háskólanum í Lundi 1981. Hann lagði stund á rannsóknir og kennslustörf við LTH til 1982, vann sem ráðgjafi á á Íslandi til 1990 þegar hann fékk prófessorsstöðu í húsagerð og orkubúskap bygginga við Konunglega verkfræðiháskólann í Stokkhólmi. Hann var skipaður orkumálstjóri í ársbyrjun 2008. Vísindastörf Guðna hafa einkum fjallað um eðlisfræði bygginga og orkusparnað og orkunýtingu í hinu byggða umhverfi.

Þórarinn Sveinn Arnarson, Ph.D., sem lauk doktorsprófi í haffræði frá University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum árið 2004. Doktorsitgerðin fjallaði um varðveislu á lífrænum efnum í setlögum á hafsbotni. Að loknu námi starfaði hann sem nýdoktor við University of Washington í rúmt ár, en árið 2006 hóf hann störf við Hafrannsóknastofnunina þar sem hann stundaði rannsóknir á flæði koltvísýrings í og úr hafinu við Ísland. Frá byrjun árs 2008 hefur Þórarinn starfað við Orkustofnun við undirbúning að veitingu sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi við Ísland. 

 

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og hefst kl. 9.00. Hann er opinn öllum sem áhuga hafa og er þessi fyrirlestur haldinn í tengslum við námskeiðið Introduction to marine technology, sem er áfangi í meistaranámínu í haf- og strandsvæðastjórnun.