miðvikudagur 14. janúar 2009

Ófriður í Paradís - rætt um reynslu við vopnahléseftirlit á Sri Lanka

Í fyrsta Vísindaporti ársins mun Auður H. Ingólfsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur fjalla um reynslu sína vegna starfa við vopnahléseftirlit á Sri Lanka á vegum Íslensku friðargæslunnar. Auður dvaldi í norðvestur hluta eyjunnar í litlum bæ sem heitir Mannar og er strjálbýlt fiskimannasamfélag og mun hún segja frá upplifun sinni af því að starfa á þessu átakasvæði. Auður valdi að kalla fyrirlesturinn Ófriður í Paradís, en Sri Lanka er af sumum talin vera Eden, eða hin týnda Paradís, umhverfið er allt hið fegursta og þannig er þessi tilvísun tilkomin.


Auður hefur einnig starfað fyrir Íslensku friðargæsluna á Balkanskaganum. Hún hefur einnig meðal annars starfað við meistaranámsleið í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands og sem sérfræðingur á Alþjóðaskrifstofu umhverfisráðuneytisins. Er Auður um þessar mundir stödd á Ísafirði þar sem hún er að kenna námskeiðið Coastal and Marine Politics and Policy, sem er eitt af kjarnanámskeiðunum í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

 

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum. Þar er fjallað í stuttu máli, 20-30 mínútur, um yfirstandandi rannsóknir eða rannsóknir sem er lokið og svo er orðið gefið laust. Vísindaportið hefst kl 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða. Allir eru velkomnir.


Auður H. Ingólfsdóttir
Auður H. Ingólfsdóttir