fimmtudagur 25. október 2007

Óbeisluð fegurð

Umfjöllunarefnið í Vísindaporti vikunnar er óhefðbundið að þessu sinni en gestur vikunnar er m.a. Matthildur Helgadóttir, einn af forsprökkum fegurðarsamkeppninnar Óbeisluð fegurð. Óbeisluð fegurð er, eins og flestir vita, óhefðbundin fegurðarsamkeppni sem var haldin í félagsheimilinu í Hnífsdal þann 18. apríl 2007. Nú hefur verið gerð heimildarmynd um keppnina og verður hún sýnd í Ísafjarðarbíói á föstudagskvöld kl. 21:00 og verður Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstjóri myndarinnar viðstödd sýninguna.

Það var hópur framkvæmdasamra einstaklinga sem tóku sig saman á vormánuðum um að halda þessa keppni í kjölfar umræðu sín á milli um gildi hefðbundinna fegurðarsamkeppna og hvernig væri í raun hægt að keppa í fegurð. Matthildur, ásamt fleiri aðstandendum keppninnar og jafnvel einhverjum keppendum, munu segja frá tilurð keppninnar og öllu því umstangi og umfjöllun sem orðið hefur í kjölfar keppninnar, en keppnin hefur fengið mikla athygli bæði hér á Íslandi og ekki síst utan úr heimi.

Fólk er hvatt til að koma og hlusta á djarfa og hugmyndaríka Vestfirðinga sem komu skemmtilegri hugmynd í framkvæmd. Vísindaportið hefst kl. 12 á föstudag.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.