Nýtt meistaranám í tónlist undirbúið
Vonir standa til að í framtíðinni muni einhverjir þeirra sem fara í þetta nýja meistaranám koma til Ísafjarðar og vinna að lokaverkefnum í samvinnu við Háskólasetrið, Tónlistarskólann eða aðra listaskóla á svæðinu, menntaskóla eða grunnskóla, hljóðverið Tankinn svo nokkrir möguleikar séu nefndir.
Tilgangur þessa viðamikla verkefnis er að búa til nýtt meistaranám í tónlist sem styrki tónlistarfólk framtíðarinnar til að takast á við nýjar áskoranir í tónlistarheiminum: auka sveigjanleika tónlistarmanna, breikka starfssvið þeirra, fjölga starfsleiðum og símenntunarmöguleikum. Vestur á Ísafjörð komu þrír verkefnishópar , stýrihópur, gæðastjórnunarhópur og námsefnishópur, sem voru á stífum vinnufundum til sunnudags en einnig var tíminn nýttur til að skoða áhugaverða staði á svæðinu. Hópurinn fór í bátsferð í Vigur og naut tónleikahalds fuglanna, einnig skoðaði hópurinn sig um í Önundarfirði, þar sem Arnþrúður Gísladóttir lék á flautu í Holtskirkju og Önundur Pálsson kynnti hljóðverið Tankinn á Flateyri. Á leiðinni var stoppað í Vestfjarðagöngunum og fóru nokkrir af hinum tónelsku gestum afsíðis til að prófa hljómburðinn í göngunum. Spurning hvort þarna megi í framtíðinni halda tónleika?