Nýtt doktorsnemaherbergi tekið í notkun við Háskólasetrið
Háskólasetur Vestfjarða býður nú í fyrsta skipti upp á sérstaka vinnuaðstöðu til leigu í húsakynnum sínum fyrir þá sem leggja stund á doktorsnám. Um er að ræða rúmgóða skrifstofu, sem getur hýst tvo nema í senn. Innheimt er hófleg leiga fyrir afnot af aðstöðunni en skrifstofan er á besta stað í húsakynnum Háskólaseturs og henni fylgir aðgangur að allri þjónustu setursins. Ef eftirspurn eftir slíkri aðstöðu vex mun Háskólasetrið mæta henni. Þótt doktorsnemaherbergið sé nýtt af nálinni hefur Háskólasetrið frá upphafi leitast við að bjóða háskólanemum á öllum námsstigum aðgang að aðstöðu setursins og hefur hún ávallt mælst vel fyrir.
Með því að bjóða upp á doktorsnemaherbergi vill Háskólasetrið leggja sitt af mörkum til að auðga hið akademíska umhverfi á Ísafirði, en doktorsnemar eru ekki aðeins sérfræðingar á sínum sviðum heldur stunda þeir oft ýmsa kennslu á svæðinu og nýtast auk þess í ýmis staðbundin verkefni, mögulega tengd atvinnulífinu.
Fyrstur til að nýta sér þessa nýju þjónustu Háskólaseturs er Ísfirðingurinn Sigurður Halldór Árnason, sem leggur nú stund á doktorsnám í líffræði við Háskólann á Hólum. Rannsóknir hans snúa að vistfræði hryggdýra. Sigurður flutti ungur frá Ísafirði en snéri nýlega heim á ný með fjölskyldu sína. Hann hefur þegar komið sér vel fyrir í Háskólasetrinu og lætur afar vel af aðstöðunni. Hann telur hana geta verið mikilvægan lið í því að laða háskólafólk vestur, ekki síst brottflutta Vestfirðinga sem hafa hug á snúa heim án ný.