Nýting á varma úr sjó í Önundarfirði
Nýverið birtist grein í tímaritinu Renewable Energy eftir Majid Eskafi sem útskrifaðist úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun árið 2016. Tímaritið Renewable Energy er meðal virtustu fagtímaritanna á sviði endurnýjanlegra orkugjafa en greinin byggir á meistaraprófsverkefni Majids sem fjallar um nýtingu varma úr sjó í Önundarfirði. Meðhöfundar greinarinnar eru dr. Ragnar Ásmundsson og dr. Steingrímur Jónsson en þeir voru einmitt leiðbeinendur verkefnisins.
Rannsóknin fólst í fýsileikakönnun á nýtingu varma úr sjó í Önundarfirði sem orkugjafa. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að mögulegt sé að nýta varma úr sjó í firðinum sem getur skapað allt að 80° heitt vatn m.a. til húshitunar með varmaskipti. Rannsóknin byggði á mælingum sem framkvæmdar voru frá 1. apríl 2015 til 1. apríl 2016 en nánar má fræðast um framkvæmd rannsóknarinnar í frétt hér á vefnum frá 2016.
Eins og áður segir lauk Majid Eskafi meistaraprófi í haf- og strandsvæðastjórnun árið 2016. Áður hafði hann lokið meistaraprófi í hafeðlisfræði frá Azad háskóla í Íran. Majid stundar nú doktorsnám við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hans fjallar um skipulag Ísafjarðarhafna þar sem lögð er áhersla á sveigjanleika og aðlögunarhæfni m.t.t. ólíkra hagsmunaaðila og viðbragða við breytingum. Doktorsverkefnið er unnið undir handleiðslu sérfræðinga við Háskóla Íslands, IHE Delft Institute for Water Education og Tækkniháskólann í Delft. Bæjarins besta ræddi við Majid um þetta spennandi verkefni fyrr í haust.