Nýsköpun í fiskeldi lauk með kynningu verkefna
Nýverið lauk vikulöngu námskeiði Háskólaseturs Vestfjarða um nýsköpun í fiskeldi sem fram fór á sunnanverðum Vestfjörðum. Á námsskeiðinu kynntust þátttakendur fiskeldinu í gegnum fyrirtækjaheimsóknir og unnu samhliða því að nýsköpunarverkefnum. Námskeiðið naut góðs af nálægð við fyrirtækin á svæðinu og var nemendahópnum vel tekinn hjá þeim öllum.
Heimsóknir í fyrirtæki
Seiðaeldisstöðin ArcticSmolt/Arctic Fish innst í Tálknafirði var skoðuð og seiðaeldisstöð Arnarlax á Gileyri í Tálknafirði. Einnig fengu nemendur tækifæri til að fylgja starfsmönnum Arnarlax einn morgun í reglulega eftirlitsferð út í kvíar í Arnarfirði. Að eftirlitsferðinni lokinni skiptist hópurinn í tvennt á Bíldudal og skoðaði fiskvinnslu fyrirtækisins og fyrirkomulag fóðurgjafa. Fóðurgjafakerfi Arnarlax er mjög tæknivætt en treystir samt tækninni hóflega enda er unnið á tveimur mönnuðum vöktum við að stýra þessu fullkomna kerfi.
Nemendurnir fengu mjög góða innsýn í stærðargráðu greinarinnar og áttuðu sig vel á mikilvægi strandsvæðastjórnunar m.t.t. hennar. Valgeir Ægir Ingólfsson hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða sagði nemendum almennt frá uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum og Indriði Indriðason sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps mætti í kennslustund til að ræða við nemendur um reynslu lítils sveitarfélags af slíkri uppbyggingu.
Þar sem nemendurnir unnu sjálfir að nýsköpunarverkefnum á kvöldin fannst þeim heimsókn bræðranna Freymars Gauta og Ragnars Þórs Marínóssona í Tungusilungi, sem eru þriðja kynslóðin í fjölskyldufyrirtæki í fiskeldi í Tálknafirði, ekki síður merkileg og uppbyggjandi, enda stærðargráðan þar á bæ frekar í átt við stærðargráðu þeirra verkefna sem nemendur unnu að. Flest verkefni nemenda fjölluðu um hugmyndir sem eru talsvert smærri í sniðum en sú stórfellda uppbygging sem nú á sér stað á Vestfjörðum í fiskeldi.
Fjölbreytt verkefni nemenda
Þrír nemendur gerðu áætlun um að stofna ráðgjafafyrirtæki í kringum eldið sem myndi þjónusta fyrirtækin og þá ekki síst varðandi skrffinnsku í kringum leyfismál, utanumhald og eftirfylgni umhverfisvottana.
Annar hópur, með þátttakendum frá landbúnaðarháskólum í Eystrasaltslöndunum, byggðu á því sem er í forgrunni hjá þeirra námi: Framleiðslu lífdísils eða annarrar orku úr úrgangi, sem væri hægt að drýgja með notkun ræktunarþara eða annars sjávargróðurs. Þetta töldu þeir vera raunhæft í eyjasamfélögum sem vantar tengingu í rafmagn eða þurfa að reiða sér á jarðefnaeldsneyti, eins og Grímsey.
Þriðji hópurinn reiknaði út hvað það myndi gefa í aðra hönd að rækta kúskel, sem heitir í mörgum öðrum málum íslandsskel sem e.t.v. myndi auðvelda markaðsmál og auglýsingar.
Tveir hópar tóku fyrir ferðamálatengda nálgun í sínum verkefnum. Annað verkefnið fjallaði um matarferðir í hálfan dag eða heilan dag til matvælafyrirtækja á sviði strandbúnaðar, hvort sem um væri að ræða í fiski, skel eða þara. Sjávarþorpið Suðureyri kann að hafa verið þeim innblástur, en nemendum fannst ekki út í hött að markaðssetja sjávareldið til ferðamanna. Hitt verkefnið sem sneri að ferðamönnum fólst í framleiðslu á þara til að búa til krydd, te og ofurfæði, og markaðssetja þessar vörur í litlum skömmtum til ferðamanna. Í svipuðu námskeiði fyrir tveim árum voru fulltrúar fyrirtækis Urta Islandica þátttakendur en fyrirtækið hefur nú þegar hafið framleiðslu í svipuðum dúr. Það er kannski merkilegt að ungum námsmönnum þyki þang og þari næstum því tískuvara framtíðarinnar og gefur það góð fyrirheit um möguleika slíkar framleiðslu.
Síðasti hópurinn fékkst við að reikna út hvort samrækt lagareldis og landeldis (aquaponics á ensku) gæti gengið upp fjárhagslega. Til að hámarka afkomu, og gera verkefnð arðbært, tóku nemendurnir fyrir ræktun rússneskrar styrju og svartra tómata. Mesti arðurinn í sliku verkefni liggur þó væntanlega í minna magni tilbúins áburðar og í hreinu vatni, sem rennur af slíkri framleiðslu, sem erfitt getur verið að setja verðmiða á.
„Make a job, don‘t take a job“
Markmið námskeiðsins var að vekja nemendur til umhugsunar um möguleika til nýsköpunar og þarfir greinarinnar fyrir nýsköpun. Fyrir vettvangsnámskeiðið höfðu nemendur í haf- og strandsvæðstjórnun við Háskólasetrið tekið tveggja vikna inngangsnámskeið um fiskeldi. Þótt ekki sé ætlunin að nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun verði sérfræðingar í fiskeldi er mikilvægt fyrir þá, sem verðandi sérfræðinga í umhverfis- og auðlindastjórnun strandsvæða, að þekkja aðstæður og skilyrði fiskeldis. En fiskeldi er eðlilega eitt af þeim úrlausnarmálum sem huga þarf að varðandi nýtingu strandsvæða á norðanverðu Atlandshafi. Val verkefna nemenda við upphaf námskeiðsins kann frekar að endurspegla akademískar hugmyndir og áherslur þeirra fremur en raunverulegar þarfir stóru fyrirtækjanna en heimsóknir í fyrirtækin kunna þó að hafa opnað augu nemenda fyrir nýsköpunarþarfir fyrirtækjanna.
Vettvangsnámskeiðið á sunnanverðum Vestfjörðum er eitt af fáum sérnámskeiðum sem boðið er upp á í einstaklingsmiðaða meistaranáminu í sjávartengdri nýsköpun við Háskólasetur Vestfjarða. Aðferðarfræði námskeiðs á sunnanverðum Vestfjörðum enduspeglar í raun hugsunarháttinn að baki námsleiðinni í sjávartengdri nýsköpun, „make a job, don‘t take a job“, eða að skapa störf í stað þess að taka störf.