Nýr vettvangsskóli frá SIT
Um árabil hefur Háskólasetur Vestfjarða og School for International Training í Vermont í Bandaríkjunum átt í farsælu samstarfi um móttöku vettvangsskóla SIT um endurnýjanlega orkugjafa sem fram hefur farið á sumrin. Nú hefur þetta samstarf verið víkkað út og hefur nýjum vettvangsskóla um loftslagsbreytingar og norður heimsskautið nú verið hleypt af stokkunum. Þessi nýi vettvangsskóli er á BA stig, er 15 vikna langur og nemur því heilli önn. Námsönnin verður bæði í boði á haust- og vorönn. Nemendur munu dvelja á Ísafirði í a.m.k. 4 vikur en í einhverjum tilfellum lengur. Að öðru leyti verður hópurinn á ferð um Ísland og Grænland í námsferðum. Fyrsti hópurinn hefur þegar hafið nám og hefur hann dvalið á Grænlandi að undanförnu en er væntanlegur á Ísafjörð á morgun 14. september.
Með tilkomu þessa nýja vettvangsskóla verða jafnframt til tvö ný rannsóknar- og kennslutengd stöðugildi á Vestfjörðum. Sérstakur fagstjóri hefur verið ráðinn til að sjá um skólann auk aðstoðarmanns. Báðir þessir aðilar tengjast Háskólasetrinu því fagstjórinn er M. Ragnar Honeth sem hefur verið kennari í haf- og strandsvæðastjórnun og aðstoðarmaður hans er Jennifer Smith sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun árið 2014.
Nemendurnir munu tengjast Ísafirði sterkum böndum því á meðan á dvöl þeirra hér stendur búa þeir hjá fjölskyldum á svæðinu. Slíkt fyrirkomulag hefur reynst mjög vel í sumarnámskeiðunum og er Háskólasetrið afar þakklátt öllum þeim fjölskyldum sem hafa séð sér fært að bæta við einum heimilsmanni um nokkurra vikna skeið.
Eins og fyrr segir er hópurinn væntanlegur á Ísafjörð á morgun, miðvikudaginn 14. September, og má því segja að frá og með morgundeginum tvöfaldist fjöldi staðbundnum nemendum við Háskólasetrið.