Nýr nemendahópur „loftslagsskólans“
Sautján bandarískir háskólanemar komu til Ísafjarðar í morgun og munu dvelja hér og víðar á Íslandi á vorönn í vettvangsnámi á vegum School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Viðfangsefni annarinnar eru loftslagsmál.
Undanfarin tíu sumur hefur Háskólasetur Vestfjarða átt í farsælu samstarfi við vettvangsskóla SIT þar sem þemað hefur verið endurnýjanlegir orkugjafar. Vettvangsskólahópur á vegum skólans hefur jafnan dvalið á Ísafirði í nokkrar vikur að sumri og stundað nám í Háskólasetrinu. Nemendur skólans hafa fengið tækifæri til að kynnast fólki og fjölskyldulífi á svæðinu nokkuð vel þar sem dvöl í heimahúsum hefur verið í boði frá því sumarið 2012 með góðum árangri.
Síðastliðið haust hleypti SIT af stokkunum nýrri námsleið í samstarfi við Háskólasetrið og mætti fyrsti hópurinn hingað til leiks í september 2016. Nemendurnir sem komu til Ísafjarðar í morgun eru því annar hópurinn sem stundar þessa námsleið hér á landi.
Námið er 15 vikur eða ein önn og er í boði bæði vor og haust. Nemendurnir koma úr hinum ýmsu skólum víðsvegar í Bandaríkjunum. Viðfangsefni vettvangsskólans eru loftslagsmál á Norðurslóðum og ferðast nemendur víða um Ísland en einnig er farið til Grænlands. Á Ísafirði dveljast nemendurnir í a.m.k fjórar fjórar vikur. Líkt og nemendur sumarskóla SIT fá þessir nemendur tækifæri til að kynnast fólki á svæðinu náið þar sem þeim er boðið að búa hjá fjölskyldum hluta af tímanum. Háskólasetrið er mjög þakklátt öllum þeim fjölskyldum sem hafa tekið þessa erlendu gesti að sér og hafa margar þeirra tekið þátt oftar en einu sinni.
Með tilkomu vettvangsskólans í haust urðu til tvö ný rannsóknar- og kennslutengd stöðugildi á Vestfjörðum. Jennifer Smith sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun Háskólaseturs árið 2014, var nýverið ráðin fagstjóri skólans en hún gegndi stöðu aðstoðarmanns fagstjóra síðastliðið haust. Akademískur ráðgjafi á þessari önn er Daniel Govoni, doktorsnemi, en hann og Jennifer eru bæði búsett á Ísafirði.
Eins og fyrr segir eru 17 nemendur í vorannarhópnum og kom hópurinn fljúgandi til Ísafjarðar í morgun. Síðdegis hitta nemendurnir fjölskyldurnar sem þeir munu búa hjá næstu vikurnar og ríkir mikil spenna á meðal nemenda fyrir því að hitta nýju foreldrana og systkinin.
Við hjá Háskólasetrinu bjóðum nemendurna hjartanlega velkomna til Ísafjarðar og hlökkum til að hafa þá hjá okkur næstu vikurnar.