miðvikudagur 23. janúar 2013

Nýjar umbúðir lengja líftíma fersk fisks

Fiskvinnslan Íslandssaga hf og Oddi hf unnu á síðustu misserum að þróun nýrra umbúða, í samstarfi við Matís, Promens og Sæmark. Markmið verkefnisins var að hanna umbúðir sem lengja líftíma á ferskum flakastykkjum til útflutnings. Í Vísindaporti föstudagsins 25. janúar mun Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri Matís á Ísafirði fjalla um verkefnið.

Ljóst er að neytendur eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir ferskan fisk en vandamál með flutninga og líftíma eru helstu hindranir í þeim viðskiptum. Það er því gríðarlega mikilvægt að finna nýjar aðferðir til að lengja líftíma og auka aðgengi að mörkuðum með merkingum fyrir neytendamarkað.

Niðurstöður verkefnisins eru að hægt er að lengja líftímann um allt að þremur sólarhringum, sem gefur þá færi til að sækja á nýja markaði, en aðferðin gefur jafnframt möguleika á pökkun á neytendamarkað. Slíkt eykur möguleika á beinum viðskiptum við verslunar- og veitingakeðjur sem oftar en ekki greiða hæstu verðin, enda gera þeir mestar kröfur um gæði.

Gunnar Þórðarson er viðskiptafræðingur að mennt. Hann lauk meistaranámi frá Háskólanum á Bifröst árið 2008.

Vísindaportið hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir velkomnir.

Gunnar Þórðarson stöðvarstjóri Matís á Ísafirði
Gunnar Þórðarson stöðvarstjóri Matís á Ísafirði