miðvikudagur 10. júní 2009

Ný stjórn Háskólaseturs

 Á aðalfundi Háskólaseturs Vestfjarða, sem fram fór föstudaginn 27. maí síðastliðinn, var meðal annars kosin ný stjórn. Úr stjórninni gengu Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, sem setið hafði í stjórninni fyrir hönd rektora íslensku háskólanna frá árinu 2007. Einnig lét Soffía Vagnsdóttir af stjórnarsetu, en hún hafði setið í stjórn Háskólaseturs frá stofnun þess.

Þau Soffía og Þorsteinn hafa hvort um sig verið öflugir stjórnarmenn og eiga drjúgan þátt í þeim stóru skrefum sem Háskólasetrið hefur stigið á síðustu árum og þökkum við þeim kærlega fyrir vel unnin störf. Í stjórnina setjast í þeirra stað Skúli Skúlason, rektor Háskólans á Hólum fyrir hönd rektoranna en Jóna Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Listaháskóla Íslands tekur sæti Soffíu Vagnsdóttur. Ásamt þeim munu áfram sitja í nýju stjórninni Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, formaður stjórnar, Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Kristján G. Jóakimsson, frá Hraðfrystihúsinu Gunnvör.

Fráfarandi stjórnarfólk ásamt þeim meðlimum stjórnar sem áfram sitja. Frá vinstri: Soffía Vagnsdóttir, Halldór Halldórsson, Kristján G. Jóakimsson, Jóhann Sigurjónsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fráfarandi stjórnarfólk ásamt þeim meðlimum stjórnar sem áfram sitja. Frá vinstri: Soffía Vagnsdóttir, Halldór Halldórsson, Kristján G. Jóakimsson, Jóhann Sigurjónsson og Þorsteinn Gunnarsson.
1 af 2