Ný námsleið í sjávarbyggðafræði í undirbúningi
Fyrr í vikunni birti forsætisráðuneytið Aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði sem unnin var af nefnd um samfélags- og atvinnuþróun á Vestfjörðum undir forystu ráðuneytisins. Í aðgerðaráætluninni er lagt til að Háskólasetri Vestfjarða verði gert kleift að setja á fót nýja námsleið á meistarastigi í sjávarbyggðafræðum.
Meistaranám í byggðafræðum er ekki til á landinu en slíkt nám verður lóð á vogarskálar faglegrar umræðu um byggðamál og mun renna styrkari stoðum undir upplýsta umræðu um þessi mál á landsvísu. Háskólasetur Vestfjarða hefur lagt áherslu á að einbeita sér að málefnum hafsins og strandsvæða og því fellur námsleiðin vel að þeim markmiðum. Ætla má að staðsetning sjávarbyggðafræða á Vestfjörðum vinni með náminu á margvíslegan hátt.
Háskólasetur Vestfjarða hefur lengi áformað að koma á fót annarri námsleið á meistarastigi samhliða núverandi námi í haf- og strandsvæðastjórnun. Ný námsleið í sjávarbyggðafræðum hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Samlegðaráhrif af tveimur námsleiðum eru ótvíræð en ætla má að fjöldi staðbundinna nemenda tvöfaldist auk þess sem viðbót um einn akademískan starfsmann mun efla Háskólasetrið umtalsvert.
Til þess að nýta sem best samlegðaráhrifin af núverandi námsleið hefur stjórn Háskólaseturs samþykkt að sótt verði um fullgildingu námsleiðarinnar til Háskólans á Akureyri í ljósi góðrar reynslu af núverandi samstarfi.