Nú er þriggja vika námskeiðinu líka lokið!
Jæja nú er þriggja vika námskeiðinu líka lokið!
Nemendahópurinn var mjög blandaður, hann samanstóð af fólki allsstaðar að úr heiminum, sumir á sínu fyrsta íslenskunámskeiði en aðrir lengra komnir.
Aðalkennari námskeiðsins var Jón Bjarni Atlason. Hann er íslenskufræðingur að mennt og hefur kennt á íslenskunámskeiðum Háskólaseturs áður. En kennsluaðferðir námskeiðsins voru fjölbreyttar og lögð var áhersla á að nýta vikurnar sem allra best. Fyrir utan morgunkennsluna, voru málfræðiæfingar, samtalsæfingar, kvikmyndasýningar, framburðaræfingar, prjónakvöld, pönnukökubakstur, ljóðlist og skyndihjálp efni sem nemendur fengust við á námskeiðinu. Einnig var ferð á slóðir Gíslasögu í Haukadal og nemendum boðið upp á einleik Elfars Loga Hannessonar um Gísla.
Nemendurnir náðu miklum framförum og var árangri þeirra fagnað síðastliðinn fimmtudag með fiskisúpu ásamt því að allir fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku á námskeiðinu.
En við höldum áfram með tveggja- vikna framhaldsnámskeið sem byrja í dag. Samtals koma í sumar til Ísafjarðar um sextíu nemendur til þess að læra þetta fallega tungumál. Það er frábært!