Níundi hópur CMM nema
Síðastliðinn fimmtudag hófst haustönn 2016 formlega við Háskólasetur Vestfjarða þegar nýr hópur meistaranema í haf- og strandsvæðastjórnun hóf nám. Hópurinn er sá níundi í röðinni en námið hóf göngu sína í september árið 2008. Að þessu sinni hefja námið tuttugu og þrír nemendur af níu þjóðernum. Námsbakgrunnur þeirra er sem fyrr fjölbreyttur en nemendurnir hafa m.a. lokið háskólaprófum í líffræði, landfræði, umhverfisfræði, landbúnaðarfræði, grafískri hönnun, bókmenntum og sagnfræði.
Þótt önnin sé rétt að hefjast hafa nokkrir nemendanna dvalið á Íslandi í nokkrar vikur m.a. til að sækja íslenskunámskeið við Háskólasetrið sem lauk í síðustu viku. Nú taka hinsvegar við námskeið í meistaranáminu en fyrstu dagana sækja nemendur stutt inngangsnámskeið um námið en í framhaldinu tekur við námskeið um íslenskt samfélag, umhverfi og náttúruauðlindir. Hluti af því námskeiði er vettvangsferð um Ísafjarðardjúp þar sem m.a. verður komið við á Hesteyri og í Vigur. Á komandi vetri munu nemendur svo kynnast ólíkum fræðigreinum og aðferðarfræðum sem nýtast við stjórnun og nýtingu haf- og strandsvæða. Að námskeiðunum loknum tekur svo við vinna við lokaverkefni að eigin vali.
Við bjóðum þennan fríða hóp velkomin á Ísafjörð og hlökkum til samstarfsins á komandi misserum.