þriðjudagur 6. september 2011

Nítján meistaranemar setjast að á Ísafirði

Í gær tóku starfsmenn Háskólasetursins á móti fjórða hópnum sem hefur nám í haf- og strandsvæðastjórnun við setrið. Hópurinn telur 19 manns að þessu sinni sem er ögn fámennari hópur en hóf nám síðasta haust.

Líkt og fyrr koma nemendurnir víða að úr heiminum frá Bretlandi, Spáni, Þýskalandi, Hollandi, Ástralíu, Kína, Kanada, Bandaríkjunum og Íslandi. Þeir hafa einnig fjölbreyttan akademískan bakgrunn m.a. í líffræði, umhverfisfræði, skipulasgfræðum, lögfræði, veðurfræði, kennslufræði, fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og heimspeki.

Gærdagurinn fór að mestu í að kynna nemendum starfsemi Háskólaseturs og þá fjölbreyttu stofnanir sem finna má í Vestrahúsinu. Auk þess kynntu nemendur síðasta árs starfsemi nemendafélagsins Ægis og að lokum var gengið um bæinn og endað á bókasafninu þar sem þjónusta þess var kynnt fyrir nemendum.

Í dag hófst svo kennsla í fyrsta námskeiði annarinnar þar sem fjallað er um umhverfi og auðlindir Íslands. Kennarar námskeiðsins eru Dagný Arnarsdóttir, fagstjóri og Georg Haney, verkefnastjóri hjá Náttúrustofu Vestfjarða.

Pernilla Rein, verkefnastjóri við Háskólasetrið fór með nýja hópinn í gönguferð um Ísafjörð.
Pernilla Rein, verkefnastjóri við Háskólasetrið fór með nýja hópinn í gönguferð um Ísafjörð.