föstudagur 13. júlí 2018

New York Times nemendaleiðangur

Í dag komu í heimsókn í Háskólasetrið hópur 17 bandarískra menntaskólanemenda og kennarar þeirra Patrick Hagarty and Steph Yin. Þessi hópur er á vegum New York Times. Hópurinn er á ferð um Vestfirði til þess að kynna sér endurnýjanlega orku og áhrif loftlagsbreytinga á strjálbýl norðlæg svæði. Yfirskrift leiðangursins er; New York Times Student Journey - Iceland: Energy & Climate Change at the Arctic Circle. 

Með hópnum í för er John Schwartz, vísindablaðamaður hjá The New York Times og kennir hann nemendum hvernig standa skal að rannsóknum og viðtölum og hvernig skrifa skal blaðagreinar byggðar á þeirri vinnu.

Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs bauð hópinn velkominn og kynnti stuttlega starfsemi Háskólasetursins. Þrír nemendur í Haf- og strandsvæðastjórnun kynntu yfirstandandi vinnu sína við lokaverkefni sín og Pétur G. Markan sveitarstjóri í Súðavík fræddi nemendur um þau mörgu málefni sem fjórðungurinn stendur frammi fyrir eins og öryggi í raforkumálum, fækkun íbúa og ferðaþjónustu svo fátt eitt sé nefnt.

Putney Student Travel sem er staðsett í Vermont í Bandaríkjunum skipuleggur námsferðir  menntaskólanema til Íslands og hafa hópar frá þeim heimsótt Háskólasetrið undanfarin ár. New York Times Student Journeys er samvinna Putney Student Travel og The New York Times.