þriðjudagur 17. september 2013

Nemendur skoða Ísafjarðardjúp

Hverju hausti fylgir nýr hópur meistaranema við Háskólasetur Vestfjarða. Í ár hóf sjötti hópurinn nám, og hafa ríflega eitt hundrað nemendur hafið nám frá byrjun, sé nýjasti hópurinn talinn með.

Í þetta sinn koma nemendur frá Þýskalandi, Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Króatíu, Finnlandi og Danmörku. Flestir nemendur hafa nú lokið tveimur námskeiðum, en kennsla hófst mánudaginn 26. ágúst.

Dagana 8. og 9. september héldu meistaranemar í námsferð. Þetta árið var breytt til og farið um Ísafjarðardjúp, í stað þess að heimsækja sunnanverða Vestfirði eins og venjan er.

Hópurinn gekk fyrst að Valagili fyrir botni Álftafjarðar. Því næst var stoppað í Litlibæ í Skötufirði og áttu flestir erfitt með að neita sér um heitar vöfflur með rabbabarasultu. Hópurinn hélt svo að Nauteyri við Ísafjörð og skoðaði aðstæður í tengslum við umræður um fiskeldi á norðlægum slóðum.  

Þar sem fæstir höfðu komist nálægt jökli var farið að Kaldalóni og nemendur gefinn kostur á að ganga að jökulrönd Drangajökuls. Gangan tók hátt á þriðja tíma. Niðurstöður rannsókna á jöklinum voru ræddar í tengslum við loftslagsbreytingar.

Loks hélt hópurinn að Heydal í Mjóafirði þar sem gist var. 

Að morgni fóru fram stuttar umræður um nýtingu og skipulag Ísafjarðardjúps í nútíð og framtíð. Hugtök eins og aðgengi almennings, burðargeta og sjónræn gæði voru sett í samhengi við Djúpið. Nemendur voru djúpt snortnir af Drangajökli en skiptar skoðanir voru um hvort rétt væri að bæta merkingar á gönguleiðinni þar sem slíkt gæti dregið úr upplifun göngugarpa.

Sjávartengd nýsköpun var í brennidepli það sem eftir lifði dags. Haldið var að verksmiðju Saltverks í Reykjanesi. Mikill áhugi var á framleiðsluferli og markaðsmálum fyrirtækisins. 

Margir útskrifaðir nemendur völdu að gera meistaraverkefni sem tengdust Djúpinu. Nýnemar fengu stuttar kynningar á efni og niðurstöðum þeirra verkefna. Einnig var nokkrum sögulegum viðburðum og þjóðsögum af svæðinu bætt í sarpinn.

Loks var haldið heim á leið, með viðkomu í Súðavík, þar sem hópuinn heimsótti fiskeldi HG. Farið var um borð í Papey og kynnti Barði Ingibjartsson skipið, rannsókna- og þróunarstarf HG á sviði þorkeldis, sem og áætlanir um laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Háskólasetrið þakkar góðar móttökur.