Nemendur rannsökuðu strandrusl í Steingrímsfirði
Nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða framkvæmdu nýverið rannsókn á strandrusli í Steingrímsfirði. Rannsóknin var gerð í vettvangsferð í tengslum við námskeiðið “Pollution in the Coastal Arctic”, sem fjallar um mengun við strandsvæði á norðurslóðum eins og titillinn gefur til kynna. Kennari námskeiðsins er Pernilla Carlsson vísindamaður við NIVA í Noregi.
Steingrímsfjörður og Strandir eru ákjósanleg staðsetning fyrir slíka rannsókn vegna hafstrauma sem flytja rusl og brak á strandlengjur svæðisins. Þessar aðstæður á Ströndum eru því ákjósanlegar til að rannsaka magn og gerð þessa braks.
Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum og Sauðfjársetrið á Sævangi veittu nemendunum aðstoð og aðstöðu í ferðinni. Alls söfnuðust 17 kíló af braki á 800 metra langri strönd. Smáhlutir úr veiðafærum voru algengir en einnig fannst hálffull flaska af munnskoli, einn skór, salatplanta og 10 lítra flaska af óskilgreindum og ómerktum eldsneytisvökva. Ruslið og brakið var talið og flokkað og sýndu frumniðurstöður að 98% var plast (ógreinanlegt plastbrak, flöskur, veiðafæri og frauðplast) en 2% braksins var gler, málmar og tré.
Verkefni á borð við þetta eru mikilvæg til að greina uppruna ruslsins sem aftur getur leitt til þess að finna lausnir á því hvernig megi koma í veg fyrir að plast og annað rusl endi í hafinu.