miðvikudagur 22. mars 2017

Nemendur kynnast fiskeldi

„Ég gerði mér ekki grein fyrir stærðargráðunni á þessu“, sagði Katrina Lang frá Eistlandi, einn af þátttakendum í námskeiðinu Nýsköpun í fiskeldi eftir heimsókn í klakstöð Arctic Fish innst í Tálknafjarðarbotni. Umfang greinarinnar og framkvæmda í tengslum við hana koma flestum á óvart. „Maður þarf víst að hafa séð þetta til að trúa því“, sagði annar þátttakandi. 

Nemendurnir sem taka þátt í námskeiðinu koma úr Háskólasetrinu, bæði úr námsleiðinni Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávartengdri nýsköpun en í þetta skiptið er einnig óvenju mikill fjöldi gestanema frá útlöndum. Þeir koma aðallega frá landbúnaðarháskólum í Eystrasaltslöndunum og frá samstarfsskóla í Finnlandi. Þessir nemendur hafa mestan áhuga á endurnýtingu vatns, lífrænum síum, og tæknilausnum almennt. 

„Magnið af fiski, fóðri og úrgangi fær mann til að gapa. Þetta er alvöru atvinnugrein“ sagði Verena Sandow frá Slésvík-Hotsetalandi. Örn Smárason hjá Arctic Fish leiddi hópinn í gegnum bygginguna og svaraði spurningum nemenda. Það vakti sérstaka athygli hve meðvitaður hann var um framtíðar verðmæti úrgangs, enda er úrgangurinn í raun áburður sem hægt er að nýta í stað þess að láta fara til spillis.

Fyrr um daginn kom Valgeir Ægir Ingólfsson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða inn á námskeið og gaf yfirlit yfir þróun fiskeldis og mikilvægi þess fyrir Vestfirði, og þá sérstaklega fyrir sunnanverða Vestfirði. 

Næstu daga munu nemendurnir heimsækja Arnarlax, sem tekur á móti nemendahópnum í klakstöðinni á Gileyri, í kvíunum í Arnarfirði og í sláturaðstöðu fyrirtækisins. Sunnanverðir Vestfirðir eru einstakir fyrir námskeið á borð við þetta þar sem hægt er að kynnast fiskeldisferlinu allt frá eggjum til slátrunar. Ekki spillir svo að veðri leikur við Tálknfirðinga og gesti þeirra þessa dagana.


Hópurinn sem tekur þátt í námskeiðinu.
Hópurinn sem tekur þátt í námskeiðinu.