Nemendur frá Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Ísafirði
Um helgina komu fimm námsmenn frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna til Ísafjarðar og munu þeir dvelja hér fram í febrúar á næsta ári. Hafrannsóknarstofnun Íslands hefur umsjón með skólanum en í ár stunda alls tuttugu og tveir nemendur nám í skólanum. Námsmennirnir fimm sem komu á Ísafjörð eru þeir Roany Martinez Cabrera frá Kúbu, Makkhen Kheng frá Kambódíu, Mahadew Rama Kokane frá Indlandi, Kingsley Madalo Thengo frá Malaví og Theofillus Kairua frá Namibíu. Þeir munu leggja stund á nám í veiðarfæratækni hjá þeim Einari Hreinssyni og Ólafi Arnari Ingólfssyni hjá Hafrannsóknarstofnun á Ísafirði en Háskólasetur Vestfjarða sér fyrir kennsluaðstöðu og vinnuaðstöðu fyrir nemendurna.