miðvikudagur 22. október 2014

Nemendahópur frá Franklin-háskóla í heimsókn

Þessa viku er staddur á Ísafirði hópur nemenda í vettvangsferð á vegum Franklin-háskóla í Sviss. Þessi háskóli er til heimilis í bænum Lugano, hann er þó bandarískur og það eru einnig nemendurnir. Háskólasetrið hefur núorðið góða reynslu af því að taka á móti vettvangsskólum. Reglan er þó að slíkir hópar heimsæki okkur yfir sumartímann, þannig að þessi hópur er óvenjulegur að því leytinu til. Það er vissulega fagnaðarefni að fá þessa gesti núna í október og nemendurnir virðast una sér vel hér.

 

Hópurinn samanstendur af 23 nemendum og er ferðin í raun námskeið í umhverfisfræði "Understanding Environmental Issues: Iceland"  þar sem aðstæður á Íslandi eru notaðar sem dæmi  í kennslunni. Á dagskrá þessa fjóra daga sem  nemendurnir eyða á Ísafirði eru meðal annars fyrirlestrar tengdir viðfangsefninu, kynningar frá Orkubúi Vestfjarða og Ísafjarðarbæ, heimsókn í Íslandssögu og á bæinn Botn í Súgandafirði þar sem nemendurnir fá að kynna sér heimarafstöðvar. Hópurinn fær einnig tækifæri til að kynnast menningu okkar með heimsóknum á söfn á svæðinu, leiksýningu um Gísla Súrsson og kynningu á ásatrú og fornum hefðum.


Fyrir hópnum fer Dr. Brack Hale og það er gaman frá því að segja að Brack hefur áður komið til Ísafjarðar til að sækja námskeið í íslensku hjá Háskólasetrinu. Hann er mikill áhugamaður um tungumál og hefur náð mjög góðu tökum á íslenskunni.

Bjóðum Brack og nemendur hans kærlega velkomna til Ísafjarðar!