miðvikudagur 13. júlí 2022

Nemandi fær Grænu ritgerðarverðlaunin

Ivan Nikonov nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun hlaut í tengslum við brautskráningu sína „Grænu ritgerðarverðlaunin“ við Háskólann á Akureyri. Nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun útskrifast formlega frá Háskólanum á Akureyri og eru því gjaldgengir í samkeppnina.

Verðlaunin voru sett á fót af Umhverfisráði og Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri til að auka magn grænna rannsókna meðal nemenda og heiðra nemendur sem taka sjálfbærni sem viðfangsefni inn í lokaritgerðir sínar.

Lokaritgerð Ivans fellur sannarlega vel að þessu enda snýst ritgerðin um að finna lausnir á fráveituvatni í fámennum og afskekktum byggðum á Íslandi. „Í þessum byggðalögum eru gjarnan litlar upplýsingar um samsetningu, dreifingu og magn fráveituvatns,“ segir Ivan. „Í ritgerðinni gerði ég tilraun á afmörkuðum svæðum við höfnina í Bolungarvík þar sem fráveituvatn rennur út í sjó. Mælingar voru gerðar á mengandi efnum og tilraun gerð með skólphreinsun þar sem þörungar voru notaðir.“ Mikil áhersla var lögð á sjálfbærni í verkefninu eins og Ivan útskýrir nánar. „Í fyrsta lagi var allur efniviður sem notaður var endurunnin, en það ánægjulegasta við tilraunina var að aðgerðin sýndi fram á umtalsverða minnkun köfnunarefnis í skólpinu.“ Ljóst er að verkefni Ivans getur gagnast víðar en í Bolungarvík. „Já, niðurstöðurnar og aðferðin sem er þróuð í rannsókninni getur gagnast víðar og er viðbót við þá þekkingu og tæknikunnáttu sem smærri byggðalög á Íslandi geta nýtsér til að bæta fráveitumál.“

Það er afar ánægjulegt fyrir Háskólasetrið að sjá lokaritgerð nemenda fá slíka viðurkenningu og færum við honum innilegar hamingjuóskir með þennan áfanga.


Ivan Nikonov hlaut Grænu ritgerðarverðlaunin.
Ivan Nikonov hlaut Grænu ritgerðarverðlaunin.