mánudagur 5. júlí 2010

Nemahópur frá SIT í heimsókn hjá Háskólasetrinu

Hópur nema frá School for International Training (SIT) frá Vermont í Bandaríkjunum dvelur nú við Háskólasetrið og er þetta fjórða árið í röð sem tekið er á móti hópi frá þessum skóla. Nemarnir munu dvelja hér í tæpar tvær vikur og er dvölin liður í nær sumarlöngu námskeiði, Renewable Energy, Technology, and Resource Economics in Iceland , sem fram fer hjá RES orkuskólanum á Akureyri, í Reykjavík og hér á Ísafirði. Fagstjóri og umsjónarmaður er Caitlin Wilson-Brötzmann, MSc og er aðstoðarmaður hennar Þórður Guðmundsson, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Á meðan nemarnir dvelja hér munu þeir hafa ýmislegt fyrir stafni. Orkubú Vestfjarða mun halda kynningu á starfsemi sinni fyrir nemahópinn, boðið verður upp á ýmsa fyrirlestra um orkumál og farið í vettvangsferðir sem tengjast viðfangsefni hópsins. Einnig fá nemarnir kynningu á sögu og menningu Vestfjarða í formi fyrirlestra, gönguferða og leikrits.

Hver nemi mun auk þess vinna rannsóknarverkefni, en verkefnin fjalla á einn eða annan hátt um endurnýjanlega orkugjafa og hefur verið leitað eftir samstarfi við aðila hér á svæðinu um þessa verkefnavinnu. Niðurstöður þessara verkefna verða kynntar á opnum kynningarfundi sem haldinn verður fimmtudaginn 14. júlí n.k. Nánari tímasetning verður auglýst er nær dregur.


SIT hópurinn 2010 fyrir framan Háskólasetrið.
SIT hópurinn 2010 fyrir framan Háskólasetrið.