fimmtudagur 23. júlí 2009

Nemahópur frá Manitoba Háskóla dvelur hjá Háskólasetri Vestfjarða

Undanfarna daga hefur dvalið hjá Háskólasetri Vestfjarða hópur nema frá Háskólanum í Manitoba í Kanada. Þetta þriðja árið í röð sem við tökum á móti hóp frá þessum skóla og líkt og áður er með í för Birna Bjarnadóttir, dósent, sem er kennari hópsins og forstöðumaður Íslenskudeildar Manitobaháskóla.

Dvöl þessara námsmanna hér á landi er vettvangsnámskeið um íslenska menningu, með áherslu á samband hennar við náttúru og umhverfi. Á dagskrá eru m.a. fyrirlestrar, heimsóknir á söfn, gönguferðir með leiðsögn um slóðir um Gísla sögu Súrssonar og einleikur Elfars Loga Hannessonar um Gísla. Einnig hefur verið farin ferð í Vatnsfjörð þar sem unnið er við fornleifauppgröft, en þar er einnig starfræktur vettvangsskóli í fornleifafræði.

Hópurinn kom til landsins þann 7. júlí s.l. og mun dvelja hér til 31.júlí, en dvalið er í rúmlega tvær vikur á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir að Birna komi til Vestfjarða að ári með nýjan hóp.

Nemarnir frá Manitoba Háskóla ásamt kennara sínum, Dr. Birna Bjarnadóttir og forstöðumanni háskólaseturs, Peter Weiss.
Nemarnir frá Manitoba Háskóla ásamt kennara sínum, Dr. Birna Bjarnadóttir og forstöðumanni háskólaseturs, Peter Weiss.