fimmtudagur 23. febrúar 2012

Neðansjávarminjar við Ísland

Í Vísindaporti föstudaginn 24. febrúar mun Dr. Ragnar Edvardsson fjalla um neðansjávarminjar við Ísland og rannsóknir á þeim.
Neðansjávarfornleifafræði hefur tiltölulega lítið verið stunduð á Íslandi þrátt fyrir miklar framfarir síðustu áratuga í fornleifafræði á landi. Frá upphafi fornleifarannsókna á Íslandi og fram til ársins 2009 hafa einungis verið stundaðar tvær neðansjávarrannsóknir. Á síðustu tveim árum hefur orðið aukning í rannsóknum á neðansjávarminjum við Ísland en nú eru tvær rannsóknir í gangi og líklegt að þeim fjölgi á næstu árum. Þessar rannsóknir hafa sýnt að fornleifarannsóknir neðansjávar við Ísland eru vel framkvæmanlegar og geta aukið skilning okkar á fortíðinni til muna. Íslendingar hafa í gegnum aldirnar byggt afkomu sína á því sem hafið gaf. Auk þess sem samskipti við önnur lönd, innflutningur og útflutningur voru að mestu yfir hafið. Því geta neðansjávarrannsóknir á sokknum skipum, verslunarstöðvum, hvalveiðistöðvum, ofl. hjálpað okkur að skilja betur hvernig verslun og viðskiptum var háttað fyrr á tímum og þannig aukið þekkingu okkar á samskiptum Íslendinga við önnur lönd.
Dr. Ragnar Edvardsson er fornleifafræðingur og sérhæfir sig í strand- og sjávarminjum. Hann lauk doktorsprófi árið 2010 en hefur síðustu 23 ár stundað rannsóknir á öllum sviðum fornleifafræði bæði heima og erlendis. Ragnar hóf störf hjá Rannsóknarsetri Háskóla á Vestfjörðum árið 2011 og hefur síðan þá nær eingöngu stundað rannsóknir á strand- og neðansjávarminjum.
Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.