föstudagur 19. október 2007

Náttúrutengd ferðaþjónusta

Gestur vikunnar í Vísindaporti er Ralf Trylla. Ralf er að vinna að meistararitgerð og er það ástæðan fyrir veru hans á Vestfjörðum. Hann mun kynna meistaraverkefnið sitt í Vísindaportinu, en það fjallar um ferðaþjónustu á Vestfjörðum og er rannsókninni sérstaklega ætlað að skoða náttúrutengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Ralf Trylla er stúdent við Háskólann í Wädenswil í Sviss en þar leggur hann stund á nám á sviði ferðamála- og umhverfisfræða. Hann kom til Ísafjarðar fyrir tveimur vikum og er því nýbyrjaður að vinna að verkefni sínu og því væri mjög gagnlegt fyrir hann að fá innsýn og athugasemdir frá sem flestum sem tengjast ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Kynningin mun fara fram á ensku og hefst kl. 12. Vonast er til að sem flestir sem láta sig varða ferðamál á Vestfjörðum sjái sér fært að mæta og nýti sér tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum og hugmyndum sem gagnast geta við vinnslu lokaverkefnis Ralfs.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.