miðvikudagur 15. nóvember 2017

Námsleiðin Sjávarbyggðafræði auglýst - 10 milljónir enn ófjármagnaðar

Undanfarna daga hafa undirsíður vefsíðu Háskólaseturs fengið andlitslyftingu en þegar nánar er að gáð munu lesendur finna heila nýja námsleið á síðunni: Sjávarbyggðafræði. Hingað til hefur námsleiðin farið frekar hljótt, þótt hún hafi legið fyrir fullfrágengin um nokkurt skeið.

Síðastliðinn þriðjudag heimsótti samráðshópur stjórnarráðsins um byggðamál Háskólasetrið og kynnnti forstöðumaður starfsemi Háskólaseturs, sér í lagi núverandi meistaranám og áætlun um að bæta við námsleið í sjávarbyggðafræðum. Fulltrúa menntamálaráðuneytisins var vel kunnugt um þessi áform enda hefur námsleiðin verið í pípunum nokkuð lengi. Nú er hinsvegar svo komið að með viðbótarsamningi við Sóknaráætlun Vestfjarða sem fjallað var um í fjölmiðlum fyrir viku, er 70% fjármagnsins til næstu þriggja ára tryggt en 30% munu ekki skýrast fyrr en með afgreiðslu fjárlaga, sem kann að verða skömmu fyrir jól. Um leið og það eru gleðifréttir að Sóknaráætlun skuli standa með þessu verkefni, hefur borið á þeim misskilninginn að með því sé málið í höfn.

Það er ekki óskastaða að auglýsa námleiðina þegar hún er ekki að fullu fjármögnuð. Verri staða væri þó að hafa fjármunina tryggða en á sama tíma enga nemendur. Þess vegna mun Háskólasetrið auglýsa námið þó svo að fjármögnunin sé ekki frágengin.

Stjórn Fjórðungssamband Vestfirðinga og samráðshópur stjórnarráðsins um byggðamál staðfestu nýlega tillögu að áhersluverkefni úr Sóknaráætlun Vestfjarða um námsleið í sjávarbyggðafræðum. Samkvæmt þessu mun Háskólasetur Vestfjarða fá samtals 15 milljóna króna framlag af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vestfjarða og mun það dreifast á þrjú ár.

Einnig hafa Fjórðungssamband Vestfirðinga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti gengið frá viðaukasamningi við Sóknaráætlun Vestfjarða um verkefni á Vestfjörðum tengdum tillögum starfshóps forsætisráðherra um aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði á árinu 2016. Þar er gert ráð fyrir styrk í nýju námsleiðina upp á fimm milljónir króna.

Heildarfjárþörf fyrir nýju námsleiðina er 34 milljónir króna samkvæmt samanburðartölum við núverandi námsleið í haf- og strandsvæðastjórnun. Þar af mun Háskólasetrið afla 14 milljóna með námsgjöldum og samlegðarnýtingu. Með veittum styrkjum úr Sóknaráætlun og Byggðasjóði er búið að tryggja 24 af 34 milljónum króna. Enn standa því eftir ófjármagnaðar 10 milljónir á ári. Háskólasetur Vestfjarða hefur ítrekað ósk sína um að mennta- og menningarmálaráðuneytið styðji við þetta verkefni, en það mun ekki skýrast fyrr en með afgreiðslu fjárlaga og nýjum samningi milli ráðuneytis og Háskólaseturs, hvort þessu markmiði verður náð.

Námsleið í sjávarbyggðafræðum er ein af tillögum starfshóps forsætisráðherra um aðgerðaráætlun sem unnin var árið 2016. Námsleiðin er mikilvægur hluti af byggðastefnu landsins í akademískum skilningi enda kominn tími til að byggðamál verði viðfangsefni á háskólastigi eins og er tilfellið í flestum löndunum í kringum okkur. Fleiri lokaritgerðir um byggðaþróun mun stuðla að upplýstri umræðu um þessi mál. Þar að auki er námsleið í sjávarbyggðafræðum bein byggðaaðgerð fyrir Ísafjörð, enda er reiknað með að 20 nýir námsmenn bætist við árlega. Úttekt AtVest hefur leitt í ljós að fyrir hverja krónu af fjár­lögum til Háskólaseturs renna nú þegar tvær í vestfirskt hagkerfi. Námsleiðin mun hafa jákvæð áhrif á svæðið og verða liður í því að byggja upp jákvæða ímynd þess. Fáir staðir á Íslandi eru jafn tilvaldir til að stunda nám í byggðafræðum og Ísafjörður og má búast við því að námsleiðin í sjávarbyggðafræðum verði hluti af öflugu íslensku háskólaumhverfi ekki síður en núverandi nám í haf- og strandsvæðastjórnun sem góð reynsla er af. Jafnframt því að styrkja Vestfirði styrkir námsleiðin Háskólann á Akureyri, sem hefur þegar veitt námsleiðinni fullgildingu. Samstarf Háskólaseturs við Háskólann á Akureyri hefur verið gott og mun nýja námsleiðin treysta það enn frekar.

Rætt hefur verið um námsleið í byggðafræðum innan Háskólaseturs frá árinu 2010, ef ekki lengur. Það ár var þetta viðfangsefni ákveðið á stefnumótunarfundi stjórnar og starfsmanna. Á þeim tíma var ekki útlit fyrir að möglegt væri að fjármagna námsleiðina og því gerðist lítið næstu árin. Árið 2014 var málið tekið upp á ný á stefnumótunarfundi, þar sem utanaðkomandi ráðgjafar komu að. Eftir það var unnið markvisst að því að koma námsleiðinni á fót.

Stjórn tilnefndi undirbúningsnefnd sem þrír háskólakennarar áttu sæti í ásamt forstöðumanni. Þessir þrír voru Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við HÍ og Kristinn Hermannsson, dósent við University of Glasgow. Undirbúningsnefndin lauk vinnu sumarið 2016 og við tók undirbúningur fyrir fullgildingu hjá Háskólanum á Akureyri. Fullgildingarferlinu lauk um áramótin 2016/2017. Námsleiðin hafði verið meðal tillagna svokallaðrar Vestfjarðanefndar, sem skilaði af sér í september 2016, en tillögurnar voru þá ófjármagnaðar. Ekki tókst að fá fjármagn í námsleiðina haustið 2016, en nú, ári seinna, eru horfurnar betri enda megnið af fjármögnuninni í höfn. Enn standa þó út af 10 milljónir króna og þar til þær verða tryggðar er námið auglýst með fyrirvara um fjármögnun.


Samráðshópur stjórnarráðsins um byggðamál ásamt starfsfólki og stjórnarmönnum Fjórðungssambands og Háskólaseturs.
Samráðshópur stjórnarráðsins um byggðamál ásamt starfsfólki og stjórnarmönnum Fjórðungssambands og Háskólaseturs.