þriðjudagur 2. nóvember 2010

Námskeið um stefnu og stjórnmál

Mánudaginn 1. nóvember hófst námskeiðið Coastal and Marine Politics and Policy sem, eins og titillinn gefur til kynna, fjallar um stjórnmál og stefnumótun hvað haf- og strandsvæði varðar. Kennari námskeiðsins er Auður H. Ingólfsdóttir en hún hefur kennt þetta námskeið frá því meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun hófst fyrir þremur árum.

Í námskeiðinu fá nemendur yfirlit yfir stefnumótunartæki opinberra aðila og hvernig þeim er beitt til að leysa málefni sem koma upp við stjórnun haf- og strandsvæða. Nemendur greina flókin málefni er varða stefnumótun og taka til umfjöllunar þá hagsmunaárekstra sem oft koma upp á milli ólíkra aðila um nýtingu haf- og strandsvæða, einkum hvað varðar skammtíma hagsmuni ákveðinna hópa gagnvart langtíma hagsmunum samfélagsins. Þá veitir námskeiðið einnig yfirlit yfir alþjóðasamninga, lög og reglugerðir sem snúa að haf- og strandsvæðum auk þess sem slíkt efni er sett í samhengi við lög og reglugerðir ríkja og sveitarfélaga.

Auður H. Ingólfsdóttir er lektor við Háskólann á Bifröst, hún lauk meistaranámi í alþjóðasamskiptum frá Fletcher School of Law and Diplomacy við Tufts háskólann í Boston í Bandaríkjunum. Hún vinnur nú að doktorsritgerð sem fjallar um öryggismál og loftslagsbreytingar á heimskautasvæðinu með áherslu á Ísland. Auður hefur mikla reynslu úr háskólaumhverfinu og úr stjórnsýslunni, en hún hefur m.a. starfað við meistaranámsleið í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands, sem sérfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu og ráðgjafi á sviði umhverfismála auk þess að sinna störfum fyrir íslensku friðargæsluna á Sri Lanka og á Balkanskaganum.