þriðjudagur 12. febrúar 2013

Námskeið um ferðaþjónustu

Í síðustu viku hófst ný kennslulota í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun með námskeiðinu Tourism Policy and Planning in Coastal Areas. Kennari námskeiðsins er prófessor Marc L. Miller frá háskólanum í Washington. Prófessor Miller er einn af þeim kennurum sem hafa kennt við meistaranámið frá upphafi og er þetta því í fimmta sinn sem hann kennir námskeiðið.

Undanfarin ár hefur námskeiðið verið kennt á sumrin, þ.e.a.s. á háanatíma ferðaþjónustunnar, en er nú í fyrsta sinn kennt á vetrartíma. Í ljósi þess hve mikil aukning hefur orðið undanfarin ár í vetrarferðaþjónustu á Íslandi er viðeigandi að veita nemendum tækifæri til að kynna sér vetrarferðaþjónustuna í „réttu" umhverfi. Enda má segja að helsti vaxtarbroddur ferðaþjónustunnar um þessar mundir sé einmitt í vetrarferðaþjónustu.

Síðasta vika var alfarið helguð fyrirlestrahaldi en nú einbeita nemendur sér að fjölbreyttum lokaverkefnum námskeiðsins. Í næstu viku hefst svo næsta kennslulota með tveimur ólíkum námskeiðum. Annarsvegar er um að ræða námskeið um notkun GIS landfræðiforrita, Geographical Informatin Systems og hinsvegar námskeið um fiskeldi, Aquaculture.

Prófessor Marc L. Miller á sjó í Arnarfirði sumarið 2010.
Prófessor Marc L. Miller á sjó í Arnarfirði sumarið 2010.