þriðjudagur 19. apríl 2011

Námsframboð í fjarnámi og próftímabil

Nú hafa allir háskólar á Íslandi birt námsframboð sitt í fjarnámi og er yfirlit yfir það aðgengilegt hér á á vefnum á vefsíðunni Fjarnám. Framboð á fjarnámi hefur smátt og smátt verið að aukast og hvetjum við alla áhugasama til að kynna sér vel það sem er í boði í hverjum skóla fyrir sig.

Próftímabilið hefst strax eftir páska eins og glögglega má sjá á aukinni notkun lesrýmis í Háskólasetrinu. Fyrsta prófið fer fram 27. apríl og stendur próftímabilið fram í maí. Mikilvægt er fyrir fjarnemendur að ganga úr skugga um að þeir séu skráðir í próf á réttum stað.

Próftaka hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur aukist talsvert síðustu ár, ekki síst meðal Vestfirðinga sem stunda nám í háskólum landsins og koma heim yfir próftímabilið og taka jafnvel öll sín próf hjá Háskólasetrinu. Þeir sem ekki eru skráðir í fjarnám hjá háskólunum þurfa ð sækja sérstaklega um að taka fjarpróf hjá Háskólasetrinu. Nemendur sem hyggjast nýta sér þennan möguleika þurfa þó að gæta þess að fá samþykki síns skóla til að taka prófin hjá Háskólasetrinu. Jafnframt er brýnt að nemendur setji sig í samband við kennslustjóra Háskólaseturs.

Nánari upplýsingar um próf má nálgast á Fjarnámssíðunni.