miðvikudagur 30. janúar 2008

Möguleikar og vandamál íslensku búfjárstofnanna

Magnús B. Jónsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri flytur fyrirlestur um nýtingu og varðveislu íslensku búfjárkynjanna í Háskólasetri Vestfjarða fimmtudaginn 31. janúar kl. 20.00. Fyrirlesturinn er hluti af sameiginlegri fyrirlestrarröð Háskólaseturs og Vestfjarðar-akademíunnar.


Magnús mun einkum beina sjónum sínum að möguleikum og vandamálum sem eru því samfara að byggja til frambúðar á íslensku búfjárstofnunum. Hann mun einkum draga fram tvö sjónarmið, annarsvegar út frá þeim skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist með Ríó-sáttmálanum um varðveislu erfðafjölbreytileika og hinsvegar út frá því hvernig nýting þessara stofna gengur upp í sífellt harðnandi samkeppni á markaði.


Magnús B. Jónsson lauk doktorsprófi í landbúnaðarfræðum frá Norges Landbrukshøgskole árið 1969, en áður hafði hann lokið búfræðikandídatsprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1963. Magnús var rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri frá 1999-2005 og þar áður skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri frá 1992. Hann hefur starfað sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands og sérfræðingur í kynbótum hjá Norges Pelsdyralslag. Magnús hefur verið ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands og forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins auk þess sem hann var um langt árabil kennari í búfjárrækt við Búvísindadeildina á Hvanneyri. Frá 2005 hefur Magnús verið prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Hvanneyri þar sem hann starfar nú í hlutastarfi jafnhliða því sem hann er í og hlutastarfi landsráðunautur í nautgriparækt hjá Bændasamtökum Íslands.