fimmtudagur 4. september 2014

Milli fjalls og fjöru: Ferðamennska í Abruzzo og Ítalíu

Föstudaginn 5. september flytur Luca Zarrilli, dósent við land- og ferðamálafræði við Chieti-Pescara á Ítalíu, opinn fyrirlestur um nýja strauma í ferðamálum á Ítalíu og ferðamennsku í Abruzzo hérðai á Ítalíu. Fyrirlesturinn fer fram á ensku í stofu 1 í Háskólasetrinu. Hann hefst kl. 16:00 og stendur til 17:00, boðið verður upp á umræður á eftir.

Fyrirlesturinn verður tvískiptur. Í fyrri hlutanum, „Nýjir straumar í ferðamálum á Ítalíu“, fjallar Luca Zarrilli almennt um ferðamál á Ítalíu með áherslu á nýja strauma í ferðamálum, flæði ferðamanna, ólíkar tegundir þeirra og skipulag. Í síðari hlutanum, „Milli fjalls og fjöru: Ferðamennska í Abruzzo“, fjallar hann um Abruzzo héraðið á Ítalíu með tilliti til tvíþættrar sjálfsmyndar (e. identity) héraðsins sem einkennist annarsvegar af hafinu og ströndinni og hinsvegar fjalllendi. Sérstökum sjónum verður svo beint að áhrifum þessarar tvíþættu sjálfsmyndar á ferðamennsku í hérðinu.

Luca Zarrilli er dósent í land- og ferðamálafræði við D'Annunzio háskólann í Pescara á Ítalíu. Rannsóknir hans snúa einkum að samspili náttúrulegs landslags og þróunar. Í nýlegri bók sinni Lifescapes (2007) fjallar hann t.a.m. um sambandið milli menningarlegrar sjálfsvitundar og svæðisbundinnar þróunar á ákveðnum svæðum í Evrópu þar á meðal Íslands. Luca Zarrilli kemur hingað til lands á vegum Erasmus áætlunarinnar og heimsækir Háskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða í ferð sinni.