miðvikudagur 29. október 2008

Menntun og starf Páls Björnssonar í Selárdal

Vísindaport um Pál Björnsson prófast í Selárdal, sem frestað var síðastliðinn föstudag vegna veðurs, fer fram næstkomandi föstudag þann 31. október klukkan 12.10. Þar mun Gunnar Marel Hinriksson, sagnfræðingur fjalla um menntun, starf og aðstæður Páls. Þess má geta að Vísindaportið verður einnig aðgengilegt í gegnum fjarfundabúnað í Grunnskólanum á Hólmavík.

Af eftirminnilegum persónum 17. aldar hefur prófasturinn í Selárdal helst getið sér nafn fyrir framgöngu sína í galdramálum, sitjandi í afdalabrauðinu Selárdal yst í Arnarfirði. En í þessu erindi verður reynt að endurmeta starf Páls og rætt um hverjir möguleikar hans voru heim kominn með hæstu meðmæli frá Hafnarháskóla, hvort Selárdalur hafi í raun verið afdalabrauð og hvernig Páll vann að því að koma ritverkum sínum á framfæri síðar á ævinni. Erindið var áður flutt á ráðstefnunni Menntun og menning í Skálholtsstifti 1620-1730 sem haldin var í Skálholtsskóla dagana 17.-19. október 2008.

Gunnar Marel Hinriksson lauk B.A.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2007 og hefur verið skiptinemi við háskólann í Tübingen í Þýskalandi og Kaupmannahafnarháskóla. Gunnar hefur birt greinar um stríðshjálparskattheimtu 1681, byggðasögu Kópavogs á 17. og 18. öld og kvikfjártalið 1703. Hann vinnur á Þjóðskjalasafni Íslands og leggur stund á meistaranám í sagnfræði við HÍ auk þess sem hann situr í stjórn Sögufélags Árnesinga.