mánudagur 2. maí 2011

Meistaraprófsvörn: Í átt að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði

Þriðjudaginn 3. maí kl. 15.00 mun Abby Sullivan verja 60 eininga meistaraprófsritgerð sína Towards a Marine Spatial Plan for the Westfjords of Iceland í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Umfjöllunarefni ritgerarðinnar er strandsvæðaskipulag Vestfjarða.

Vörnin fer fram í fundarsal Háskólaseturs og er opin almenningi.

 

Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Lorrain Gray hjá NAFC Marine Centre á Hjaltlandi. Prófdómari er Dr. Sigríður Kristjánsdóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Ágrip
Strandsvæðastkipulag (e. Marine Spatial Planning) er viðurkennt sem lykilatriði við haf- og strandsvæðaskipulag sem tekur tillit til vistkerfisins. Þetta er ferli sem nýtir ýmis tæki og verkferla landskipulags sem eru aðlagaðir að sérstökum áskorunum og einkennum hafsins. Í þessu felst að safna rúmfræðilegum upplýsingum til að gefa betri mynd af umhverfi hafsvæðanna svo framtíðar skipulagsákvarðanir séu teknar á upplýstan hátt. Upp á síðkastið hefur áhugi á strandsvæðaskipulag aukist mjög víðsvegar um heiminn, einkum í Evrópu. Samþætta stjórnun af þessu tagi hefur skort á Íslandi, þótt Ísland reiði sig í ríkum mæli á hafið og auðlindir þess. Til að kanna hvaða aðferðir strandsvæðaskipulags henti best á Vestfjörðum eru nýlegar rannsóknir á þessu sviði, víðsvegar um heiminn, bornar saman við tilraunasvæði á Vestfjörðum, þ.e.a.s. Ísafjarðardjúp. Niðurstöðurnar gefa til kynna að ágreiningur um nýtingu hafsvæðanna tengist oftast nær fiskveiðum og fiskeldi og að búast megi við auknum ágreiningi um þessa nýtingu með tilkomu nýrrar tækni svo sem á sviði orkunýtingar hafsins. Rannsóknin leiddi í ljós að þau gildi sem eru talin hvað mikilvægust á svæðinu séu atvinnusköpun, sjálfbær þróun og fjölgun íbúa. Upplýsingum var safnað með viðtölum við sérfræðinga á svæðinu auk þess sem GIS tækni (e. Geographical Information Systems) var notuð til að útbúa kort sem sýna þá þekkingu sem til staðar er um nýtingu svæðisins. Einnig er mælt með ákveðnum aðferðum til að halda áfram með strandsvæðaskipulagsferli á Vestfjörðum. Að lokum kemur fram að strandsvæðaskipulag veitir möguleika á margvíslegum ávinningi og tækifærum til að minnka ágreining og stuðla að sjálfbærri þróun með betur upplýstri og áhrifaríkari ákvörðunartöku á Vestfjörðum.


Abby Sullivan ver ritgerð sína um strandsvæðaskipulag á Vestfjörðum á morgun.
Abby Sullivan ver ritgerð sína um strandsvæðaskipulag á Vestfjörðum á morgun.