Meistaraprófskynning: Fiskeldi í Kenía
Kynningin fer fram á ensku kl. 16:00 í stofu 1-2 í Háskólasetrinu. Athugið að Nora Jacobi verður á staðnum.
Athugun á möguleikum fiskeldis til að bæta lífskjör kenískra bænda við Viktoríuvatn - mat á áhrifum opinbers stuðnings
Útdráttur
Fiskeftirspurn vex sífellt í Kenýa í Austur-Afríku. Vegna hnignandi fiskistofna gerir fiskframboð það hins vegar ekki. Í alþjóðlegum samanburði er fiskeldi í Kenýa enn óverulegt og fylgir ekki hröðum vexti greinarinnar á heimsvísu. Hins vegar eru vannýtt sóknarfæri í fiskeldisstarfsemi í Kenýa. Árið 2009 varð þróun og markaðsvæðing eldis á beitarfiski og Norður-Afríkgrana hluti af efnahagsörvunaráætlun ríkisstjórnar landsins. Markmið áætlunarinnar voru að örva hagvöxt með sköpun viðskiptatækifæra og starfa og að draga úr fæðuóöryggi og fátækt sem eru meiriháttar vandamál í Kenýa. Fiskeldisframleiðsla jókst stórum í kjölfarið. Þessi rannsókn notaðist við spurningalista til að varpa ljósi á áhrif stuðnings ríkisstjórnarinnar á lífskjör bænda sem stunda smáframleiðslu á eldisfiski í Nyanza- og Western-sýslum í Kenýa. Í brennidepli voru einkenni býla, stuðningskerfi, fjárhagur býla, breytingar á lífskjörum og framtíð fiskeldisins. Vegna tekna af fiskeldi bötnuðu lífskjör bænda sem hlotið höfðu styrki frá ríkisstjórninni þegar litið er til prótínneyslu en framleiðni tjarna þeirra er lítil. Með því að auka tekjur og bæta aðgengi að prótínum hjálpuðu styrkirnir bændunum til skemmri tíma litið en þeir kenndu bændunum ekki hvernig stunda má sjálfbært fiskeldi þegar þeir hætta að fá styrki. Ein leið til að auka framleiðni tjarna þeirra er að styðja við samþætta og sjálfbæra stundun landbúnaðar og fiskeldis. Ef framleiðni tjarnanna nær ekki að aukast er mikil hætta á að dragi úr fiskeldi í Kenýa með neikvæðum afleiðingum á lífskjör bænda.