fimmtudagur 3. desember 2009

Meistaranemi með hugmyndir um að virkja sjávarföll

Bjarni M. Jónsson, meistaranemi í haf- og strandsvæðstórnun við Háskólasetur Vestfjarða hefur undanfarin misseri í tengslum við meistaraverkefni sitt kannað fýsileika þess að virkja sjávarföll í nokkrum innfjörðum Breiðafjarðar. Gerði hann ítarlega mælingu á magni og dýpt sjávar í þessum fjörðum með það í huga að meta aflið sem virkja mætti samhliða þverbrúun fjarðarins og er hugmyndin sú að sameina brúargerð og virkjun í eina framkvæmd. Leiðbeinandi Bjarna er prófessor Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

 

Bjarni hefur reiknað afl sjávarfalla fyrir nær alla innfirði og kom í ljós að hámarksafl í Dýrafirði yrði 10 MW, Mjóafirði 14 MW, Kolgrafarfirði 50MW og Gilsfirði 100 MW. Samkvæmt útreikningum hans gæfi þverbrú í mynni Þorskafjarðar og aðliggjandi fjörðum hámarksafl 180 MW. Raunafl virkjunar á útfalli gæti orðið á bilinu 75-80 MW og væri um að ræða afl sem er lotubundið, útreiknanlegt og nákvæmt langt fram í tímann.

 

Í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkubú Vestfjarða og Vegagerðina undirbýr Bjarni nú stofnun sprotafyrirtæki sem þróa mun frekar þessa virkjunarhugmynd. Hefur fyrirtækið fengið vinnuheitið Vesturorka-WesTide. Var þetta tilkynnt á kynningarfundi sem haldinn var í háskólasetrinu 27. nóvember s.l.

 

Þess má einnig geta að Atvinnuþróunarfélagið veitti í mars s.l. Bjarna rannsóknarstyrk til að rannsaka hafstrauma sem mögulegan orkugjafa og aðstoðaði honum þannig með að ýta þessu verkefni úr vör. Lesa frétt.

 

Nánari upplýsingar um verkefnið veita:
Bjarni M. Jónsson, s.8618007
Þorgeir Pálsson (AtVest), s. 8990020


Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Þorgeir Pálsson framkvæmdastjóri Atvest, Þorsteinn I. Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Bjarni M. Jónsson og Kristján Haraldsson Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða á kynningarfundinum í háskólasetrinu.
Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Þorgeir Pálsson framkvæmdastjóri Atvest, Þorsteinn I. Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Bjarni M. Jónsson og Kristján Haraldsson Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða á kynningarfundinum í háskólasetrinu.