miðvikudagur 24. september 2014

Meistaranemar smala

Smalamennska í afskekktum dölum er trúlega ekki algengur viðburður utan námskrár hjá nemendum í alþjóðlegu meistaranámi víðast hvar í heiminum. Hjá nemendum í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða er smalamennska þó nokkuð sem er orðinn fastur liður á haustönninni. Frá upphafi meistaranámsins hafa námsmannahóparnir verið afar duglegir að taka þátt í samfélaginu á ýmsum sviðum. Meðal annars hefur skapast sú hefð, allt frá því námið hófst haustið 2008, að nemendur aðstoða Elísabetur Pétursdóttur bónda á Ingjaldssandi við smölun á haustin.

Í nýlegu viðtali við BB nefnir Elísabet að um síðustu helgi hafi á milli tuttugu og þrjátiu manns aðstoðað hana við smalamennskuna. Bæði er um að ræða nýja nemendur sem hófu nám í haust sem og eldri nemendur sem sumir hverjir hafa komið ár eftir ár til að aðstoða við smölun. Þessi skemmtilega hefð er nokkuð sem gefur nemendum einstakt tækifæri til að kynnast aðstæðum á Vestfjörðum og er gott dæmi um það hve miklir þátttakendur þeir eru í samfélaginu.

Nánar má lesa um smalamennskuna á vef BB.