þriðjudagur 20. apríl 2010

Meistarafyrirlestur: Virkjun sjávarfallaorku á Vestfjörðum

Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 22. apríl, fer fram fyrsta meistaraprófsvörn í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða þegar Bjarni M. Jónsson ver ritgerð sína Harnessing tidal energy in the Westfjords (Virkjun sjávarfallaorku á Vestfjörðum). Fyrr í vetur fóru fram nokkrar kynningar útskriftarnema á 30 eininga meistaraprófsverkefnum. Verkefni Bjarna er hinsvegar stærra í sniðum, eða 60 einingar, og þar af leiðandi fer fram formleg meistaraprófsvörn. Það má því segja að um ákveðin tímamót sé að ræða í sögu Háskólasetursins.

Vörnin er opin öllum áhugasömum. Hún fer fram sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 22. apríl, í stofu 1-2 í Háskólasetri Vestfjarða og hefst kl. 16.00.

Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Prófdómari er Dr. John Nyboer, rannsóknarverkefnisstjóri við Simon Frasier University í Vancouver, Kanada.

Ágrip
Í meistararitgerð Bjarna er varpað ljósi á möguleika þess að virkja orku sjávarfalla á strandsvæðum Vestfjarða. Til að kanna hagkvæmni þess að nota orku sjávar sem endurnýjanlega orkuuppsprettu er nálgun verkefnisins bæði vísindaleg og hagnýt. Áhersla er lögð á aðferðir sem nýttar eru við gerð vegstífluvirkjana og þann áhugaverða möguleika sem þær bjóða upp á.

Mat á mælingum sjávarstrauma, Fourier greining á tölulegum upplýsingum um flóðahæðir og áætlun um mögulega orkugetu valdra staða á Vestfjörðum gefa vísbendingar um að samþætting virkjunar og vegþverunar sé besti kosturinn til að virkja orku ákveðinna fjarða.

Í Gilsfirði er nú þegar til staðar vegþverun sem auðveldar uppsetningu virkjunar. Einnig er fyrirhuguð vegþverun þriggja fjarða í grenndinni, Þorskafjarðar, Djúpfjarðar og Gufufjarðar. Samþætting vegþverunar og sjávarfallavirkjunar í sameiginlegu mynni þessara þriggja fjarða gæti leyst úr nokkrum samfélagsmálum. Meðal þeirra eru deilan um Teigsskóg, löngu tímabærar og nauðsynlegar vegabætur og raforkuframleiðsla byggð á endurnýjanlegum orkugjafa með um 144 GWh árlegri framleiðslu.

Á sumardaginn fyrsta ver Bjarni M. Jónsson meistaraprófsritgerð sína Harnessing Tidal Energy in the Westfjords.
Á sumardaginn fyrsta ver Bjarni M. Jónsson meistaraprófsritgerð sína Harnessing Tidal Energy in the Westfjords.