fimmtudagur 5. maí 2011

Mat á vistfræðilegum gæðum Pollsins

Föstudaginn 6. maí mun Arastou Gharibi kynna meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er ekki sótt langt því í henni er fengist við að meta vistfræðileg gæði Pollsins á Ísafirði en ritgerðin ber titilinn Ecological quality assessment for Pollurinn (Ísafjörður) by using biotic indices. Í ritgerðinni er fengist við það verkefni að nota líffræðistuðla til að meta umhverfisáhrif manna á Pollinn í Skutulsfirði í samræmi við viðmið vatnatilskipunar Evrópu. Kynningin fer fram á ensku í fundarsal Háskólaseturs og hefst kl. 12.10. Hún er opin almenningi og allir velkomnir.

Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Þorleifur Eiríksson, forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða en prófdómari er Dr. Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands.

Útdráttur
Mat á áhrifum er grundvallaratriði í umhverfisstjórnun og vistfræðilegir matstuðlar eru verkfæri sem eru mikið notuð í þeim tilgangi. Fjölbreytnistuðlar eins og Shannon-Wiener voru venjulega notaðir til að meta þessi áhrif. Nýlega þróaðir líffræðistuðlar; AMBI og M-AMBI hafa verið notaðir erlendis sem vísar á umhverfisáhrif manna. Hér voru þeir notaðir í fyrsta skipti í þessari rannsókn sem vísar á áhrif manna á umhverfisástands Pollsins í Skutulsfirði í samræmi við viðmið vatnatilskipunar Evrópu. Botndýrasamfélögin voru rannsökuð til að svara eftirfarandi spurningum: 1 - Hvert er umhverfisástand Pollsins? 2- Hefur ástand umhverfisins breyst milli sýnatökuára? Til að svara þessum spurningum voru notuð tvö gagnasöfn frá Náttúrustofu Vestfjarða. Sýni voru tekin árið 1997 og sýnataka endurtekin 2010. Matstuðlar sem voru notaðir gáfu svipaða niðurstöðu um umhverfisástand og var ástand mismunandi sýnatökustöðva flokkað sem meðalgott eða gott. Samkvæmt M-AMBI stuðlinum voru niðurstöður þessar: 1 - Meðalgott umhverfisástand stöðva nálægt útrásum skólps og gott umhverfisástand fyrir stöðvar í miðjum Pollinum.2 - Um það bil 21% lakara ástand á stöðvum nálægt útrásum og 10% betra ástand í miðjum Pollinum.

Arastou Gharibi kynnir meistaraprófsritgerð sína um vistfræðileg gæði Pollsins á Ísafirði.
Arastou Gharibi kynnir meistaraprófsritgerð sína um vistfræðileg gæði Pollsins á Ísafirði.