Maríuguðspjall og staða kvenna í fornkirkjunni
Í Vísindaporti á föstudaginn mun sr. Magnús Erlingsson flytja erindi um Maríuguðspjall og stöðu kvenna í fornkirkjunni. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða upplýsingar Maríuguðspjall og aðrir fornir textar veita okkur um hlutverk kvenna við upphaf kristni. Maríuguðspjall er hluti af koptísku handriti, sem fannst í Egyptalandi undir lok 19. aldar. Á 20. öld fundust svo papýrushandrit á grísku af Maríuguðspjalli við borgina Oxyrhynchus í Egyptalandi.
Sr. Magnús Erlingsson lauk kandidatsnámi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1986. Næstu fimm árin starfaði hann sem fræðslufulltrúi á Biskupsstofu en frá 1991 hefur hann þjónað sem sóknarprestur á Ísafirði. Undanfarin tvö ár hefur hann verið í meistaranámi við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er kynning á rannsóknarverkefni hans, sem hann hefur unnið undir handleiðslu prófessors Jóns Ma. Ásgeirssonar.
Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.